Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 16:54:43 (943)

2000-10-30 16:54:43# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[16:54]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum frv. en átti þess ekki kost að vera viðstödd fyrri hluta umræðunnar vegna starfa erlendis á vegum þingsins. En mig langar aðeins að koma inn í þessa umræðu núna þótt ýmislegt hafi komið hér fram hjá þeim hv. þm. sem töluðu hér á undan mér sem ég get ekki annað en tekið undir.

Frv. fjallar um tekjutengingu tekjutryggingar lífeyrisþega við tekjur maka, þ.e. að hún verði afnumin og tekjutengingin verði aðeins við eigin tekjur lífeyrisþegans. Mér finnst þetta eitthvert það mesta réttlætismál sem fyrir liggur á þessu þingi og er þó af ýmsu að taka. Það er alveg deginum ljósara að það er kannski ekkert ákvæði í íslenskum tryggingalögum núna sem veldur annarri eins úlfúð í þjóðfélaginu og þessi tekjutenging tekjutryggingar lífeyrisþega.

Það hefur aðeins verið slakað á þessu í tvígang núna á undanförnum árum, en ekki sem neinu munar í sjálfu sér og þarf að taka mun betur á.

Málið er að hluta til fyrir dómi núna. Héraðsdómur kvað upp sinn úrskurð á liðnu ári og mér skilst að úrskurður Hæstaréttar sé væntanlegur og í mínum huga er alveg ljóst hvernig hann mun verða.

Mér finnst gríðarlega mikið réttlætismál að þetta sé miðað við einstaklingana sjálfa, þ.e. þessi tekjutryggingarhluti, en ekki við maka vegna þess að meðan þetta fólk var vinnandi sem núna nýtur lífeyris þá borgaði það tryggingagjald, en í því var falin þessi tekjutrygging. Mér finnst mjög óréttlátt að svo sé hægt, alveg án tillits til þess hvað er búið að borga inn í þessa tekjutryggingu, að afnema þetta bara vegna hjúskaparstöðu þegar svo annaðhvort fólk missir heilsuna eða fer á ellilífeyri.

Ég hef kynnst því sjálf að það finnast fjölmörg dæmi um að fólk hefur ekki séð neina útgönguleið aðra en að slíta hjúskap til að njóta réttlætis í þessum málum. Og ég verð nú að segja að mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar þeir flokkar sem núna eru við völd í landinu og mjög hafa haldið á lofti gildi fjölskyldunnar, skuli ekki geta --- hvar er nú hæstv. heilbr.- og trmrh.? Nú er hún horfinn úr salnum þegar ég er að flytja þessa mögnuðu hugvekju og þykir mér skarð fyrir skildi. Ég vil biðja forseta að sjá til þess að hæstv. heilbr.- og trmrh. geti verið viðstödd þessa umræðu til enda.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra er í húsinu og forseti mun senda henni skilaboð um að hennar sé óskað í þingsalnum.)

Á fundinum hafa öll þau ákvæði í íslenskum lögum sem eru andstæð þessu að okkar mati verið mjög vel rakin og ég ætla svo sem ekki að endurtaka það. En ég vil taka það sérstaklega fram að við öll sem hér erum inni þekkjum ábyggilega dæmi um að til sambúðarslita eða skilnaðar hafi komið, einmitt vegna þessarar reglu, vegna þess að fólk getur ekki staðið undir sjálfu sér þegar það verður fyrir svo mikilli skerðingu og það ætti að réttlæta það að þessi regla verði afnumin og það fyrr en síðar.

[17:00]

Ég vil líka taka undir það sem fram kemur í bók Stefáns Ólafssonar prófessors, Íslensku leiðinni, sem sumir hafa nú kallað Íslensku neyðina vegna þess að hún leiddi vel í ljós þá mjög bágbornu stöðu sem þeir eru í sem verst standa gagnvart tryggingakerfi okkar, en þar er fjallað einmitt um það að þessi regla sé arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar frá fyrri öldum þar sem framfærsluskylda var lögð á fjölskylduna eða ættingja í heild áður en til fátækraaðstoðar gæti komið með tilheyrandi athugun á þörf og því hvort hinn fátæki verðskuldaði aðstoðina.

Ég held að þegar almannatryggingalögin voru sett á sínum tíma hafi það tvímælalaust verið andi laganna að allir ættu að vera jafnir án tillits til hver staða þeirra væri að öðru leyti og líka án tillits til hver hjúskaparstaða þeirra væri.

Það gegnir öðru máli með annars konar uppbætur sem koma svo á bætur lífeyrisþega eftir að tekjutryggingunni sleppir, t.d. heimilisuppbót eins og hér er minnst á. Eftir því sem ég þekki erlendis, þó að þessar tölur séu auðvitað aðrar þar og miklu hærri og þó að það sé eins og hér hefur verið drepið á mjög erfitt að bera þetta saman, er það þannig að tekjutenging kemur þá fyrst til sögunnar þegar slíkar uppbætur koma inn. En þetta frv. fjallar ekki um þær.

Ég vil að lokum ekki fara úr ræðustól í umræðum um tryggingamál án þess að taka undir það sem kom fram fyrr á fundinum að auðvitað þurfum við fyrst og fremst að taka á fyrir þá sem verst standa og það er ótrúlega stór hópur sem stendur verulega illa. Það eru t.d. ótrúlega margar ekkjur á áttræðisaldri og ég tala ekki um eldri sem voru alla tíð heimavinnandi húsmæður og áttu menn sem áttu ekki rétt í lífeyrissjóði eða áttu mjög lítinn rétt í lífeyrissjóði, sem hafa tekjur sem eru að mínum dómi, jafnvel þó þær hafi þær uppbætur sem völ er á, undir framfærslumörkum. Ég tel að við verðum að taka sérstaklega á til að rétta hlut þessa fólks. Við getum ekki liðið það í velferðarríkinu Íslandi að stór hópur lífeyrisþega, sumir segja 25%, séu undir þeim mörkum að þeir geti með góðu móti framfleytt sér, hvað þá fjölskyldu. Ég vil vekja athygli á því að það þarf að koma upp öryggisneti meðal þjóðarinnar sem tryggir að enginn lendi undir þeirri tölu sem er t.d. meðalverkamannalaun til að framfleyta fjölskyldunni.