Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 17:53:06 (951)

2000-10-30 17:53:06# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[17:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa eindregnum stuðningi við það frv. sem er til umræðu og felur í sér að tekjutenging tekjutryggingar lífeyrisþega við tekjur maka verði afnumin. Það veit á gott að hæstv. heilbrrh. tekur undir að þetta frv. fjalli um mannréttindi. Það eru vissulega nokkur sannindi að orð eru til alls fyrst. Vandinn er sá að við höfum verið að orða þessa hluti í nokkuð mörg ár. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar í þinginu a.m.k. síðan ég kom hingað í þingsal árið 1995 án þess að nægilega stór skref hafi verið stigin í átt til þess að leiðrétta þetta.

Hvers vegna segja menn að þetta frv. fjalli um mannréttindi? Jú, það kemur í ljós þegar við drögum upp hver myndin er. Öryrki sem fær engar tekjur eða bætur annars staðar en úr almannatryggingakerfinu getur mest fengið um 70 þús. kr. í sinn hlut en ef hann er í sambúð eða giftur hrapar hann niður fyrir 50 þús. kr. markið, fer niður í um 49 þús. kr. Ef makinn hefur einhverjar tekjur að marki, skerðast jafnvel þessar litlu greiðslur og geta farið niður í um 17 þús. kr. á mánuði hverjum sem þættu ekki miklir vasapeningar fyrir fullorðna manneskju.

Hvar liggja þá mannréttindin og brotið á þeim? Jú, það liggur í því að gera þá sem verða fyrir áföllum, eru sjúkir eða missa heilsuna, algerlega upp á maka sinn kominn, gera þá að þurfalingum í því samhengi, gagnstætt því sem gerist hjá öðrum aðilum sem fá framfærslulífeyri úr almannasjóðum eins og atvinnulaust fólk. Atvinnulaust fólk fær atvinnuleysisbætur óháð því hverjar tekjur makans eru. Hvergi er spurt um það á launamarkaði hverjar tekjur makans eru, alls staðar fá menn greiðslur á eigin forsendum. Þetta vilja menn að gildi um öryrkja og lágmark að mínum dómi að gengið verði að þeirri tillögu sem hér er sett fram. Reyndar hef ég heyrt það á málflutningi flutningsmanna og margra annarra að lengra þyrfti að ganga en hér er skref sem ég held að allir þyrftu að sameinast um að stíga hið allra fyrsta.

Mönnum ber ekki alveg saman um hversu mikið þetta mundi kosta. Vitnað hefur verið í upplýsingar frá Tryggingastofnun, 1. flm. Ásta R. Jóhannesdóttir hefur gert það í máli sínu, að þetta kæmi til með að kosta um 360 millj. kr., en hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að tilkostnaðurinn kynni að verða eitthvað meiri þótt sennilega mundi það ekki fara upp í eina sendiráðsbyggingu í Tókíó sem samkvæmt fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar á að kosta litlar 700 millj. kr.

Því vek ég máls á þessu að allt hlýtur þetta að snúast um forgangsröðun í samfélaginu. Finnst okkur eðlilegt að forgangsraða með þessum hætti? Við vöktum máls á því, mörg hver, þegar ríkisstjórnin var að lækka skatta og aðflutningsgjöld af skotvopnum, nasli og poppkorni, að ógleymdum jeppunum náttúrlega, en skattar og gjöld á þá lækkuðu um hálfa milljón á stærstu tækin, þá væri nú vitlaust gefið og hefði verið nær að grípa til ráða eins og lagt er til í þessu frv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að hafa mörg orð um þetta. Ég ætla ekki að fara að núa hæstv. ráðherra því um nasir hvað gerst hafi á undangengnum árum. Ef við gætum sameinast um það að gera eitthvað raunhæft í málunum núna skiptir það að sjálfsögðu miklu meira en hvað gerst hefur eða gerst hefur ekki, öllu heldur, á liðnum mánuðum og liðnum árum. En eitt má hæstv. ráðherra vita að vilji hún knýja fram breytta forgangsröðun innan ríkisstjórnarinnar þessu málefni í vil þá á hún stuðning Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í því efni.