Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 18:04:22 (953)

2000-10-30 18:04:22# 126. lþ. 15.17 fundur 19. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga sem ég flyt ásamt hv. þm. Drífu Hjartardóttur, Guðjóni A. Kristjánssyni, Ólafi Erni Haraldssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur og Ögmundi Jónassyni.

Allt frá stofnun embættis umboðsmanns barna árið 1995 hefur umboðsmaður barna vakið athygli stjórnvalda á því hve brýnt sé að mótuð verði skýr opinber heildarstefna í málefnum barna og unglinga og aðgerðir samræmdar af hálfu stjórnvalda á ýmsum sviðum er snerta hagi þeirra. Á hinum Norðurlöndunum hefur með góðum árangri verið farið með málefni barna með þeim hætti, mótuð heildarstefna í málefnum þeirra og síðan framkvæmdaáætlun á grundvelli slíkrar stefnumótunar. Þessi þáltill. er sniðin að þeirri leið sem farin hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum en tillagan orðast svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Markmið stefnumótunar verði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Í því skyni verði skipuð nefnd með aðild forsrn., félmrn., heilbr.- og trmr., dómsmrn., menntmrn., umhvrn. og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á grundvelli stefnumótunar framangreindra aðila verði gerð fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga, þar með talin félagasamtök unglinga.``

Í lokin á þessari tillögu er lagt til að framkvæmdaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2001.

Eins og ég sagði áður hafa hin norrænu ríkin mótað sér heildarstefnu í málefnum barna og unglinga. Árið 1986 var t.d. lögð fyrir danska þingið af hálfu þáverandi félagsmálaráðherra tillaga um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga, en á grundvelli þeirrar tillögu, sem samþykkt var í janúar 1987, var skipuð nefnd með aðild þeirra ráðuneyta sem málefni barna og unglinga heyra til. Á grundvelli stefnumótunar var síðan unnin ítarleg framkvæmdaáætlun sem tók einnig mjög mikið tillit til sjónarmiða unglinga sem að stefnumótuninni komu. Þá var og komið á reynslusveitarfélögum sem sérstaklega tóku þátt í að þróa ýmsar nýjungar í stefnumótun og framkvæmdaáætlun um málefni unglinga.

Ég held að hér séu á ferðinni mjög skynsamleg, eðlileg og rétt vinnubrögð. Ég ítreka að hér er á ferðinni þverpólitísk tillaga sem að standa fulltrúar allra flokka. Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi og fékk nær undantekningarlaust mjög jákvæðar umsagnir frá þeim sem um hana fjölluðu og vil ég þar nefna: Barnaheill, Barnaverndarstofu, umboðsmann barna, barna- og unglingageðdeildina, Félag íslenskra uppeldis- og meðferðarstofnana fyrir börn og unglinga og Barnaverndarráð. Þeir sem til þessara mála þekkja, þ.e. til málefna barna og unglinga, hafa því sýnt jákvæð viðbrögð og komið fram með jákvæðar umsagnir í nefndinni sem fjallaði um málið.

Ég tel líka ástæðu til að benda á að íslenska ríkisstjórnin hefur í samræmi við 44. gr. samnings Sameinuðu þjónanna, um réttindi barnsins, skuldbundið sig til að láta nefnd sem stofnuð er með samningum samkvæmt barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í té skýrslur um það sem gert hefur verið til að tryggja réttindi þau sem viðurkennd eru í samningnum og hvernig hafi miðað við það. Nú liggur fyrir önnur skýrsla íslensku ríkisstjórnarinnar til barnaréttarnefndarinnar en nefndin hefur ekki enn fjallað um efni hennar. Að því kemur líklega ekki fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Í þessari skýrslu ríkisstjórnarinnar segir m.a. að haustið 1999 hafi verið lögð fram till. til þál. um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga. Enn fremur segir í skýrslunni, með leyfi forseti:

,,Þá er þess vænst að tillaga um heildarstefnumótun og framkvæmdaáætlun í málefnum barna og unglinga verði samþykkt á Alþingi fyrri hluta árs 2000.``

Loks segir orðrétt:

,,Í stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir kjörtímabilið er lögð áhersla á bætta þjónustu við börn, að auka forvarnaaðgerðir og meðferðarúrræði vegna áfengis- og vímuefnavandans og að bæta þjónustu við sjúk börn og ungmenni og að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags.``

Herra forseti. Hér segir í skýrslu, sem liggur fyrir hjá Sameinuðu þjóðunum, að þess sé vænst að tillaga sem lögð var fram á síðasta þingi um heildarstefnumótun og framkvæmdaáætlun í málefnum barna og unglinga verði samþykkt hér á Alþingi fyrri hluta ársins 2000. Ég hlýt því að líta svo á, herra forseti, að þessi tillaga hafi fengið jákvæða umfjöllun í ríkisstjórninni sem og hér á hv. Alþingi og í þeirri nefnd á vegum þingsins sem um hana hefur fjallað. Ég geri mér þannig vonir um að hún nái fram að ganga á yfirstandandi þingi.

Ég held að það sé grundvallaratriði, herra forseti, hjá þjóðum sem kenna sig við velferðarsamfélög, að búa vel að börnum og unglingum og tryggja þeim sem jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Ég tel að það sé forsenda fyrir markvissum og skipulögðum vinnubrögðum að fara í slíka stefnumótun sem þessi tillaga gerir ráð fyrir og að byggja síðan á henni framkvæmdaáætlun. Það gæfi okkur heildarsýn í þessum mikilvæga málaflokki sem snertir börn og unglinga og hlýtur að vera mikilvægt stýritæki fyrir stjórnvöld. Reyndar er mjög mikilvægt að svo verði gert hér á landi, ekki síst þar sem málefni barna heyra undir mörg ráðuneyti, félmrn., heilbrrn., dómsmrn., umhvrn., menntmrn. Málefni barna eru raunar einnig mikilvægur málaflokkur hjá sveitarfélögunum og því er mikilvægt að til sé heildarsýn í þessum efnum og að til sé stýritæki til að vinna eftir. Þannig mætti forgangsraða brýnustu verkefnum sem undir þennan málaflokk heyra.

Ég vil nefna, herra forseti, að ýmsar samnorrænar kannanir sem gerðar hafa verið sýna líka að framlög til málefna barna og fjölskyldna þeirra eru langminnst á Íslandi. Í úttekt og skýrslu sem gerð var af landsnefnd um Ár fjölskyldunnar 1994 kom fram að börn og málsvarar þeirra muni halda áfram að gera kröfur um bætta réttarstöðu þeirra, uppeldisskilyrði og tilfinningatengsl við báða foreldra.

Í úttekt á framlögum Íslendinga til málefna barna samanborið við hin Norðurlöndin kemur fram að börn undir 15 ára aldri á Norðurlöndunum eru hlutfallslega langflest hér á Íslandi. Börn undir 15 ára aldri eru tæpur fjórðungur þjóðarinnar eða 24,5% af heildinni meðan hlutfallið á hinum Norðurlöndunum er á bilinu 17--19,4%. Þegar kemur að útgjöldum á íbúa sem hlutfall af landsframleiðslu þá er þau langlægst hér á landi og ekki nema 2,4% sem varið er til þessa mikilvæga málaflokks meðan útgjöldin annars staðar á Norðurlöndunum, þar sem börn á þessum aldri eru hlutfallslega miklu færri, eru allt frá 3,9% af landsframleiðslu upp í 5,2%. Hér er hlutfallið einungis 2,4%.

[18:15]

Herra forseti. Ég held að það muni margfaldlega skila sér aftur til þjóðarinnar ef við munum auka verulega framlög til málefna barna og unglinga. Það mun skila sér í minni útgjöldum til félagsmála og til heilbrigðismála. Ef við setjum aukna fjármuni í forvarnir mun það skila sér í því að við munum ná betri árangri í baráttunni við fíkniefnavandann og í baráttunni við umferðarslys. Ástæða er til að nefna það að slysatíðni á börnum er mjög há hér miðað við aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Verkefnin eru ærin. Fyrir utan það sem hefur komið fram og kemur fram í þingmáli Samfylkingarinnar látum við miklu minna fjármagn til menntunar en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Það hlýtur auðvitað að koma inn í slíka framkvæmdaáætlun þegar við erum að móta stefnuna í málefnum barna og unglinga.

Herra forseti. Hvernig sem á málið er litið kemur allt heim og saman í því efni að það standa öll rök til þess að tillagan verði samþykkt.

Ég sagði í upphafi máls míns að umboðsmaður barna hefði að ég best veit nánast í hverri skýrslu sinni allt frá stofnun þess embættis lagt áherslu á þessa heildarstefnumótun og Ísland stendur eitt Norðurlanda utan við það að hafa mótað heildarstefnu í þessum mikilvæga málaflokki.

Ég vil t.d. grípa niður í eina skýrslu umboðsmanns þar sem segir orðrétt:

,,Umboðsmaður barna ítrekar nauðsyn þess að ráðist verði í það brýna verk sem mótun opinberrar stefnu í málefnum barna og ungmenna er og telur að bók, sem umboðsmaður hefur staðið fyrir og nefnist ,,Mannabörn eru merkileg``, geti verið gagnlegur grunnur til að byggja þessa stefnumótun á.``

Herra forseti. Ég vil í lokin vitna í þær umsagnir sem þegar liggja fyrir um þetta mál og komu fram á síðasta þingi. Barnaheill fagnar þessari framkomnu tillögu. Ég vil nefna menntmrn. sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Stefnumörkun og stjórnsýsla á vegum ríkisins í málefnum er varðar börn og ungmenni fellur undir verksvið ýmissa ráðuneyta. Veigamiklir þættir í starfi menntamálaráðuneytisins beinast að slíkum viðfangsefnum. Er þar bæði um að ræða skólamál og almenn menningarmál, stuðning við æskulýðsstarf og íþróttir.

Skipulegt samráð um málefni barna og unglinga ætti m.a. að beinast að því markmiði að skýra hlutverk og verkaskiptingu á þessu sviði, bæði milli ráðuneyta og að því er tekur til félagasamtaka og einstaklinga.``

Mér finnst það afar mikilvægt sem þarna kemur fram hjá menntmrn. Það er alveg ljóst að félagasamtök gegna afar miklu hlutverki varðandi málefni barna og unglinga og ættu að vera virkir þátttakendur í þeirri stefnumótun sem fer væntanlega fram verði þessi tillaga samþykkt.

Sama gildir um umsagnir frá Barnaverndarstofu sem er afar jákvæð gagnvart þessari stefnumótun. Dóms- og kirkjmrn. telur að samstarf þeirra aðila sem tilgreindir eru í þáltill. við stefnumótun þar sem framangreind sjónarmið eru höfð að leiðarljósi þyki til þess fallið að tryggja hag og velferð barna á breiðum grundvelli. Það er mat ráðuneytisins að slík stefnumótun og gerð framkvæmdaáætlunar á grundvelli hennar sé almennt í þágu hagsmuna barna og unglinga.

Félag íslenskra uppeldis- og meðferðarstofnana tekur undir málið í ítarlegri umsögn sem er mjög jákvæð, sama gildir um barnaverndarráð, svo nokkur dæmi séu tekin úr þeim umsögnum sem liggja fyrir.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði tillögunni vísað til hv. allshn.