Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 18:28:48 (955)

2000-10-30 18:28:48# 126. lþ. 15.17 fundur 19. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum, sem sæti eiga á Alþingi, standa að þessari till. til þál. en 1. flm. tillögunnar, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur þegar gert ítarlega grein fyrir henni og einnig hefur hv. þm. Drífa Hjartardóttir farið ágætlega yfir málið. Ætla ég fyrst og fremst að koma hingað upp til að lýsa eindregnum stuðningi við að þetta mál nái fram að ganga hratt og fljótt.

Það er grundvallaratriði hjá þjóðum sem kenna sig við eða vilja kenna sig við velferðarsamfélög að búa vel að börnum og unglingum og tryggja þeim sem jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Hugmyndin að baki tillögunni er að kalla saman fulltrúa allra anga framkvæmdarvaldsins ef svo má að orði komast, fulltrúa úr forsrn., félmrn., heilbr.- og trmrn., dómsmrn., menntmrn., umhvmrn. og einnig frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að koma að gerð heildstæðrar stefnumótunar í málefnum barna og unglinga. Þetta á sér fyrirmynd í öðrum ríkjum og vísum við til þess í grg. með þáltill. að m.a. hafi verið gerð slík stefnumótun ,,í Noregi sem tekur á öllum þáttum þjóðlífsins sem snúa að málefnum barna og unglinga, en í þeirri stefnu er þungamiðjan að öryggi, umönnun og góð uppvaxtarskilyrði barna og unglinga séu meðal mikilvægustu verkefna stjórnvalda`` svo ég vitni, með síðbúnu leyfi hæstv. forseta, orðrétt í greinargerðina með till. til. þál.

[18:30]

Staðreyndin er sú að þessi mál mættu vera í mun betri farvegi hjá okkur. Í greinargerð þáltill. vísum við m.a. í aðra slíka tillögu sem flutt var hér snemma á tíunda áratugnum. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Í tillögu til þingsályktunar um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem flutt var á 122. löggjafarþingi undir forustu Rannveigar Guðmundsdóttur, er þess m.a. getið að þótt barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi lýst yfir ánægju með ýmsa þætti í framkvæmd barnasáttmálans hér á landi hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við aðra þætti framkvæmdarinnar.``

Og síðar í greinargerðinni vísum við í þá staðreynd að samkvæmt ýmsum samnorrænum könnunum sem gerðar hafa verið á framlagi til málefna sem tengjast börnum og unglingum, kom í ljós að hlutfallslega er þetta framlag minnst hér á landi.

Það er einnig vísað í úttekt sem gerð var af landsnefnd um Ár fjölskyldunnar frá árinu 1994. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í samfélagi okkar er nú brýnna en áður að búa börnum traust og stöðug uppvaxtarskilyrði ...``

Kemur mér þá í hug ljóðið sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir las áðan og fjallar um óöryggi barnsins og mikilvægi þess að það búi við öryggi í öllu sínu lífi.

Eins og hér hefur komið fram viljum við að tekið sé á öllum þáttum, bæði hinum efnalegu, uppeldi og umönnun og fræðslu. Og við viljum horfa til hins andlega fóðurs að sjálfsögðu einnig. Það hlýtur að vera öllum umhugsunarefni og áhyggjuefni hvaða menningarumhverfi við búum uppvaxandi kynslóð eða öllu heldur hve menningarsnautt það er á stundum og hve ábyrgð fjölmiðla og allra þeirra sem koma að uppfræðslu og skemmtun í samfélaginu er mikil. Á öllum þessum þáttum viljum við að sjálfsögðu taka.

Verður búin til eða yrði búin til einhver ein allsherjarpatentlausn sem mundi duga um alla framtíð? Nei, það er ekki trú okkar að svo yrði. Við teljum hins vegar að með samræmdu átaki muni vera hægt að vekja þjóðfélagið og ábyrgðaraðila innan þess til vitundar um hlutverk sitt og skyldur gagnvart börnum og unglingum þannig að umræðan ætti að geta orðið til góðs og að sjálfsögðu viljum við að hún skili sér í raunhæfum tillögum til úrbóta.

Eins og fram kom í máli hv. 1. flm., Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur þessi tillaga verið flutt áður. Hv. þm. vitnaði í umsagnir sem fram höfðu komið frá aðilum á borð við Barnaheill, Barnaverndarstofu, umboðsmann barna, BUGL, Félag íslenskra uppeldis- og meðferðarstofnana fyrir börn og unglinga og barnaverndarráð. Allir þessir aðilar hafa lýst eindregnum stuðningi við þessa tillögu. En stuðningurinn hefur komið úr fleiri áttum og ætti að gefa okkur von um að hún nái fram að ganga, því stuðningurinn hefur einnig komið fram hjá ríkisstjórn Íslands.

Í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kom fram að í skýrslu, sem flutt var á vegum íslensku ríkisstjórnarinnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hefði því verið lýst yfir að tillaga með þessu innihaldi yrði samþykkt á fyrri hluta ársins 2000 og að því yrði stefnt. Og ef sú er raunin, ef menn ætla að standa við þessi orð sín og þessar yfirlýsingar þá er þess að vænta að sú þverpólitíska tillaga sem hér er flutt undir forustu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur nái fram að ganga á þessu þingi og yrði það vel.