Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 18:36:31 (956)

2000-10-30 18:36:31# 126. lþ. 15.17 fundur 19. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[18:36]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég kem upp til þess að lýsa stuðningi við það mál sem hér er til umfjöllunar, þ.e till. til þál. um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

Segja má að hægt sé að líta svo á að kannski sé búið að ákveða að samþykkja þessa tillögu, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti hér áðan og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, í tengslum við þá stefnumótun sem lýst var á þingi Sameinuðu þjóðanna og ég vona að sú sé raunin,

Ég hef litið svo á að það væri forgangsverkefni hvaða ríkisstjórnar sem er að hafa málefni barna og ungmenna í fyrsta sæti. Það er auðvitað verið að vinna mjög víða að hagsmunum barna og ungmenna, þ.e. í sveitarfélögunum, í skólum, stofnunum, í barnaverndinni og íþróttafélögum. En það sem vantar er einmitt sú samræming sem heildarstefnumótun af þessu tagi býður upp á. Ég hef líka litið svo á að vinna við slíka heildarstefnumótun væri tæki sérhverrar ríkisstjórnar til þess að vinna í málaflokknum og ekki bara í þessum málaflokki heldur mörgum öðrum. Síðan er það auðvitað forgangsröðun og annað sem markar hina pólitísku áherslu á hverjum tíma.

Ég held að samfara svona heildarstefnumótun sé líka mjög mikilvægt að vera með sérstaka framkvæmdaáætlun. Við sjáum að það er eitt af því sem Danir hafa t.d. gert og byrjuðu strax að gera upp úr 1986. En slík framkvæmdaáætlun þarf náttúrlega líka að haldast í hendur við stefnumótunina og það má auðvitað bæta því við þegar við ræðum málið í nefndinni.

Þegar þáltill. var send til umsagnar ýmissa samtaka þá fögnuðu henni allir. Skemmst er að minnast t.d. umsagnar umboðsmanns barna og líka þess sem hún segir í bók sinni ,,Mannabörn eru merkileg-- staðreyndir um börn og unglinga`` sem nefnd er í greinargerðinni, þ.e. að þessi áætlanagerð varðandi börn og ungmenni sé lykilatriði í því að farsælt starf verði samræmt þannig að hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gera og báðar hendur jafnvígar.

Ég vil leggja þessu máli lið og ég veit að það mun fara til hv. allshn. og fá þar góða umfjöllun.