Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 18:40:35 (958)

2000-10-30 18:40:35# 126. lþ. 15.17 fundur 19. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[18:40]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég stend einungis upp til þess að þakka þeim þingmönnum sem hér hafa talað og tekið undir efni þessarar tillögu. Þeir þingmenn sem hér hafa talað koma úr flestum flokkum sem sæti eiga á þingi og margir hverjir þeirra eru flutningsmenn þessarar tillögu, enda tillagan þverpólitísk eins og hér hefur komið fram.

Það er ekki oft á þingi sem við fjöllum um mál sem svo breið og víðtæk samstaða er um eins og virðist vera í þessu máli, herra forseti, þannig að það er mjög ánægjulegt að mæla fyrir þessari tillögu og finna þær jákvæðu undirtektir sem hún hefur fengið.

Það rétt eins og komið hefur fram í málflutningi þeirra sem hér hafa talað að málefni barna spanna yfir mjög vítt svið á vettvangi stjórnsýslunnar, bæði á sveitarstjórnarstiginu og hjá hinu opinbera. Þau spanna raunverulega flesta málaflokka. Margir koma að þessum málum í fag- og félagasamtökum. Það segir sig því sjálft að það er mjög brýnt að samræma aðgerðir og heildarstefnumótun í þessum málaflokki.

Enn og aftur, herra forseti, þakka ég fyrir þær undirtektir sem málið hefur fengið sem styður það sem við höfum sagt og mælt fyrir, þ.e. að þessi tillaga fái brautargengi og framgang á hv. þingi á næstu vikum.