Könnun á umfangi vændis

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 18:49:51 (960)

2000-10-30 18:49:51# 126. lþ. 15.19 fundur 49. mál: #A könnun á umfangi vændis# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[18:49]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er flutt till. til þál. um að kanna umfang vændis hér á landi og lagt til að dómsmrh. skipi vinnuhóp í málinu.

Ég held að hér sé hreyft mjög þörfu máli. Talað er um það umbúðalaust að í samfélagi okkar sé vændi orðið útbreitt. Það þekkist á veitingastöðum og það er stundað gegnum síma og jafnvel gegnum aðra þjónustu sem veitt er þó þau fyrirtæki gefi sig alls ekki upp í þessari starfsemi. Svona er talað í þessu þjóðfélagi. Ég held að það sé þess vegna verið að hreyfa ákaflega þörfu máli og virkilega nauðsynlegt að menn tali um þetta mál eins og það virðist vera að þróast í þjóðfélagi okkar.

Löngum hefur verið talið að Ísland væri laust við það sem hefur viðgengist víða í öðrum löndum að vændi væri opinbert og til staðar. Nú virðist hins vegar umræðan í þjóðfélaginu eindregið benda til þess að vændi eigi sér stað í þjóðfélagi okkar og fari vaxandi. Þess vegna held ég að sú tillaga sem er nú flutt sé mjög tímabær og ég lýsi yfir stuðningi mínum við hana. Ég vonast til þess að hún nái fram að ganga þannig að menn geti reynt að átta sig betur á því hvað hér er á ferðinni svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.