Iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 13:33:57 (961)

2000-10-31 13:33:57# 126. lþ. 16.1 fundur 155. mál: #A iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna# beiðni um skýrslu frá viðskrh., viðskrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Eftirlit með vátryggingafélögum er í höndum Fjármálaeftirlitsins. Taki Fjármálaeftirlitið rekstur eftirlitsskyldra aðila til skoðunar hefur eftirlitið aðgang að öllu bókhaldi, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum í vörslu viðkomandi eftirlitsskylds aðila. Í kjölfar síðustu hækkana vátryggingafélaga á bifreiðatryggingum tók Fjármálaeftirlitið þær hækkanir til athugunar í því skyni að meta hvort tilefni væri til aðgerða af þess hálfu. Athugun eftirlitsins byggðist á gögnum frá félögunum og fyrri athugunum á iðgjöldum af ökutækjatryggingum. Niðurstaða þeirrar athugunar leiddi í ljós að félögin hafa sýnt fram á aukinn tjónakostnað og óstöðugleika í greininni. Fjármálaeftirlitið taldi sig því ekki hafa forsendur til að grípa til aðgerða á grundvelli þess að iðgjöld félaganna væru ósanngjörn í skilningi 2. mgr. 55. gr. laga nr. 60/1994.

Þannig hefur sá aðili sem Alþingi hefur með lögum fengið það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi vátryggingafélaga framkvæmt athugun á iðgjöldum vátryggingafélaganna og ekki talið (Forseti hringir.) tilefni til aðgerða. Umbeðnar upplýsingar munu ekki koma fram í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður og hv. þingmenn biðja um. Þess vegna mun ég sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.