Iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 13:42:25 (965)

2000-10-31 13:42:25# 126. lþ. 16.1 fundur 155. mál: #A iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna# beiðni um skýrslu frá viðskrh., viðskrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að tryggingar hafa hækkað mikið á síðustu mánuðum og missirum. Hins vegar getum við ekki horft fram hjá því að við höfum komið málum í ákveðinn farveg á hv. Alþingi hvað varðar eftirlit. Við höfum sett lög um Fjármálaeftirlit. Sú stofnun fer með það hlutverk að hafa eftirlit með vátryggingafélögunum. Þess vegna samræmist þessi beiðni um skýrslu ekki þeim reglum sem við höfum sjálf sett okkur. Það er undarlegt að tveir hv. þingmenn sem hér tala hæst, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hafa hvað mesta þingreynslu, skuli ekki átta sig á þeim reglum sem við höfum sjálf sett okkur. Ég get ekki annað en setið hjá við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að ég get ekki gefið þessar upplýsingar. Mér finnst betra að segja það hér strax heldur en þurfa að segja það þegar skýrslan kemur fram því að hún mun valda miklum vonbrigðum hvort sem hv. þingmönnum líkar betur eða verr. Ég greiði ekki atkvæði.