Iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 13:45:14 (967)

2000-10-31 13:45:14# 126. lþ. 16.1 fundur 155. mál: #A iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna# beiðni um skýrslu frá viðskrh., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Alþingi setur lög um skyldutryggingar bifreiðatrygginga. Tryggingafélögin ákvarða síðan iðgjaldið fyrir þær tryggingar. Á undanförnum mánuðum hafa þessi iðgjöld verið að hækka um tugi prósenta, 70--80% á tveimur undangengnum árum. Það er skylda Alþingis að fylgjast með því að iðgjöldum sé í hóf stillt, að tryggingafélögin komi sér ekki saman um að hafa viðskiptamenn sína að féþúfu á grundvelli laga sem Alþingi setur, lögþvingaðri féþúfu.

Fjármálaeftirlitið hefur að sönnu skoðað þessi mál en fulltrúum stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. finnst mörgum spurningum ósvarað og höfum við óskað eftir skýringum í þessu skýrsluformi. Nú sætir það furðu, ef ekki er hægt að taka dýpra í árinni og tala um pólitískt hneyksli, að hæstv. viðskrh. skuli ætla að slá skjaldborg um tryggingafélögin og þögn þeirra í málinu. Alþingi gerir kröfu um að upplýsingar verði hér fram reiddar.