Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 13:50:52 (969)

2000-10-31 13:50:52# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2000 sem er að finna á þskj. 156. Með frv. er áætlað að tekjur ríkissjóðs hækki um 15,4 milljarða kr. frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins og sótt er um 5,7 milljarða viðbótarfjárheimildir vegna meiri útgjalda en fyrirséð voru við afgreiðslu fjárlaga.

Frv. ber með sér að staða ríkissjóðs er sterk og einkennist af áframhaldandi hagvexti sem skilar sér í auknum tekjum ríkisins. Útgjöld hækka umfram forsendur, einkum vegna útgjalda sjúkratrygginga, kjarasamninga, sérstakra ákvarðana um sendiráðsbyggingar í Japan og Kanada, endurskoðunar vaxtagjalda og fleiri tiltölulega stórra útgjaldaliða en umframkostnaður í rekstri stofnana er nú mun fyrirferðarminni en verið hefur undanfarin ár. Frv. einkennist þannig af hertri framkvæmd fjárlaga og því að brugðist er við umframútgjöldum innan ársins og halli eða afgangur stofnana eftir atvikum fluttur yfir á næsta ár eða milli ára.

Tekjuáætlun ríkissjóðs byggði á áætlaðri niðurstöðu ríkisreiknings árið 1999 og spá Þjóðhagsstofnunar frá því í desember 1999 um þróun helstu hagstærða árið 2000. Þessar forsendur hafa breyst í nokkrum atriðum. Annars vegar sýnir ríkisreikningur fyrir árið 1999 mun hagstæðari niðurstöðu en tekjuáætlunin byggði á. Hins vegar hafa helstu efnahagsforsendur breyst og er nú spáð helmingi meiri vexti þjóðarútgjalda en þá var. Mest hækka skattar á tekjur og hagnað eða um 7,5 milljarða kr. Þar af skila tekjuskattar einstaklinga 2,8 milljörðum meiri tekjum og fjármagnstekjuskattur er 1,5 milljörðum umfram áætlun. Hækkun tekjuskatta einstaklinga stafar af minna atvinnuleysi og meiri hækkun launa en áætluð var og aukin umsvif á fjármagnsmarkaði skila ríkissjóði einnig auknum tekjum.

Loks er í frv. gert ráð fyrir að tekjuskattar fyrirtækja skili meiri tekjum en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Sú áætlun verður hins vegar endurskoðuð í ljósi þeirrar álagningar sem hefur nú farið fram í októbermánuði og liggur fyrir en fyrstu vísbendingar þaðan eru reyndar um að tekjurnar geti orðið nokkru minni en áætlað er í þessu fjáraukalagafrv.

Skattar á vörur og þjónustu eru tæplega 5 milljörðum kr. umfram áætlun. Þar af er virðisaukaskattur tæplega 6 milljörðum kr. umfram áætlun en á móti eru vörugjöld eða aðrir sértækir veltuskattar tæplega milljarði kr. lægri en áætlað var. Hækkun virðisaukaskatts frá áætlun má annars vegar rekja til breyttra þjóðhagsforsendna og hins vegar reyndust tekjur af virðisaukaskatti á síðasta ári mun hærri en gengið var út frá í áætlun fjárlaganna.

Aðrar tekjubreytingar eru minni og skýrast einkum af auknum vaxtatekjum sem eru nú áætlaðar 2 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum. Koma þar einkum við sögu hærri vaxtatekjur 1999 en gert var ráð fyrir við áætlun fjárlaga og flytjast áfram milli ára og sömuleiðis vaxtatekjur af inneign ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands.

Að því er varðar útgjaldahlið frv. er sótt um rúmlega 5,7 milljarða kr. viðbótarfjárheimildir til að mæta auknum útgjöldum. Þar af eru framlög til launa- og rekstrargjalda um 2,2 milljarðar, neyslu- og rekstrartilfærslur nema tæpum 1,2 milljörðum og viðhald og stofnkostnaður tæplega 1,7 milljörðum kr. Loks eru vaxtagjöld áætluð 700 millj. kr. hærri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Er þar fyrst og fremst um að ræða hærri skammtímavexti innan lands, kostnað vegna fyrirframinnlausnar spariskírteina en einnig hærri vaxtagjöld í útgjöldum. Frávik í rekstrarútgjöldum skýrast einkum af kjarasamningum, breyttri framsetningu á mótframlagi vegna lífeyrissparnaðar, samningi um rekstur strandstöðva og áforma um að hreinsa olíu úr flaki El Grillo í Seyðisfirði. Þá er lagt til að rekstrarkostnaður Þjóðminjasafns og Hollustuverndar umfram heimildir verði bættur að hluta í tengslum við skipulags- og mannabreytingar sem orðið hafa hjá þessum stofnunum.

Aðrar breytingar eru að mestu leyti vegna ýmissa ófyrirséðra atvika, samninga og lagabreytinga. Rekja má nær öll frávik í tilfærsluútgjöldum til umframútgjalda í sjúkratryggingum og eru þau frávik nánar skýrð í athugasemdum með frv. Þá hækka tilfærsluútgjöld um 200 millj. kr. vegna jarðskjálfta á Suðurlandi og um 100 millj. kr. vegna framlaga til Byggðastofnunar. Á móti kemur að útgjöld vegna atvinnuleysis verða 600 millj. kr. minni en áætlað var. Loks hækka framlög til stofnkostnaðar um tæplega 1,7 milljarða kr. eins og áður var nefnt. Þar af eru 900 millj. vegna sendiráðsbygginga í Japan og Kanada og um 400 millj. vegna breytinga á vegáætlun.

Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1999 var mikil umræða um umframútgjöld stofnana, einkum sjúkrastofnana og ábyrgð forstöðumanna í þeim efnum. Í kjölfarið gaf fjmrn. út verklagsreglur um framkvæmd fjárlaga þar sem fram kemur ábyrgð forstöðumanna og kröfur um að viðkomandi ráðuneyti fylgi eftir ákvörðunum Alþingis. Þá voru gefnar út reglur um lánsviðskipti ríkisstofnana til að koma í veg fyrir að stofnanir safni skuldum án heimildar. Loks hefur upplýsingastreymi um fjármál stofnana sem standa utan bókhaldskerfis ríkisins verið bætt. Þannig hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga verið hert auk þess sem Ríkisendurskoðun mun upplýsa fjárln. um hvernig tekist hafi til með rekstur sjúkrastofnana á árinu. Fjmrn. mun áfram leggja ríka áherslu á að fjárlögum verði framfylgt enda er það forsenda fyrir trúverðugleika í ríkisfjármálum og jafnframt því að stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum nái fram að ganga.

Heildaráætlun fjáraukalagafrv., hin endurskoðaða áætlun um tekjur og gjöld samkvæmt frv., sýnir að tekjuafgangur hækkar um 9,6 milljarða kr. frá fjárlögum 1999 og verður samkvæmt þessari áætlun 26,3 milljarðar. Hreinn lánsfjárjöfnuður batnar um tæplega 6,6 milljarða kr. og er áætlaður 27,5 milljarðar. Auk almennrar endurskoðunar á tekjum og útgjöldum í meðförum þingsins geta hins vegar orðið aðrar breytingar á þessu frv. sem geta breytt þessari mynd nokkuð. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir því að heildartekjur af sölu eigna á þessu ári nemi 7,1 milljarði kr. og þar af eru 4,6 færðir sem söluhagnaður á tekjuhlið fjárlaganna. Ef ekki verður af sölu á eignarhlutum fyrir áramót sem þessu nemur verður að endurskoða þessa áætlun fyrir áramótin fyrir 3. umr. en væntanlega færist þá söluhagnaðurinn yfir áramót þannig að samanlagður lánsfjárafgangur beggja ára ætti ekki að breytast að ráði og hefur þar af leiðandi ekki mikla þýðingu þó að það lækki niðurstöðutölur þessa árs en hækki þær á næsta ári.

Einnig eru tvö önnur mál nú til meðferðar á vegum ríkisstjórnarinnar sem hér geta haft áhrif og þurfa að koma til skoðunar við endanlega afgreiðslu frv. Það er í fyrsta lagi niðurstaða svokallaðrar tekjustofnanefndar um tekjustofna sveitarfélaga og aðild ríkisins að breytingum í því efni. Þar liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit um að leggja til á þessu ári 700 millj kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem ætlunin er að ráðstafa með svipuðum hætti og á síðasta ári og þarf að gera ráð fyrir þessu við lokaafgreiðslu frv. með brtt. Einnig er hugsanlegt ef niðurstaða fæst í málefnum Orkubús Vestfjarða, sem bar örlítið á góma í gær, að gera þurfi ráð fyrir sérstökum útgjöldum vegna þess samkomulags inn í þetta frv. Sú niðurstaða liggur ekki fyrir en verður vonandi áður en frv. verður endanlega afgreitt frá Alþingi.

Herra forseti. Ég hef farið nokkrum almennum orðum um þetta frv. og þau áhrif sem það hefur til að auka rekstrarafgang ríkissjóðs. Ég sé ekki ástæðu til að tíunda frekar einstaka liði í frv. umfram það sem gert hefur verið. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln. þingsins.