Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 14:53:31 (973)

2000-10-31 14:53:31# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson tók undir áhyggjur mínar varðandi þróun efnahagsmála en hann spurði hins vegar: Hvar eru ráð og andmæli Samfylkingarinnar? Hvað hefur Samfylkingin fram að færa í þessum efnum?

Herra forseti. Ég hef áður bent á að hæstv. ríkisstjórn urðu á alvarleg mistök sem gera það að verkum að við erum núna stödd í þeirri stöðu sem við horfum framan í núna. Ég benti á að menn hefðu ekki átt að lækka skatta yfir línuna í góðæri. Ég benti líka á það á sínum tíma að menn hefðu ekki átt að fara þá leið sem hv. þm. tók þátt í, að ausa fé í húsnæðiskerfi með þeim afleiðingum að verð á húsnæðismarkaði rauk upp úr öllu valdi og átti verulegan þátt í verðbólguþróuninni um sinn. Sömuleiðis vöruðum við í Samfylkingunni við þeim aðferðum sem brúkaðar voru í fyrstu lotu einkavæðingar á bönkunum, þ.e. þar sem selt var nýtt hlutafé úr bönkunum í staðinn fyrir að selja það sem fyrir var. Þetta gerði það að verkum að bankarnir höfðu meira eigið fé og gátu farið í það að slá sér miklu meiri lán erlendis sem þeir síðan þrýstu út á tombóluprís vegna þess að þeir voru að búa sig undir endurskipulagningu á bankamarkaði. Þetta var með öðrum orðum tilraun þeirra til þess að bæta vígstöðu sína og ríkisstjórnin leyfði þeim það. Það held ég að hafi orðið einhver mesti hvati verðbólguþróunar og þenslunnar sem við urðum vör við. Ég spyr hv. þm.: Telur hann t.d. að sú ákvörðun að leyfa Búnaðarbankanum að auka enn við eigið fé sitt núna undir því yfirskini að verið sé að setja upp útibú í útlöndum sé ekki líka líkleg til að ýta undir útlán bankanna og þenslu hér á landi?