Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 14:55:25 (974)

2000-10-31 14:55:25# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. taldi að það hefðu verið mistök að lækka skatta. (Gripið fram í.) Þetta kemur manni örlítið á óvart og þá er hægt að gagnálykta að það sé tillaga Samfylkingarinnar að hækka skatta en ég hef ekki orðið var við það, t.d. í umræðum um tekjustofna sveitarfélaga því þar hefur verið varað sérstaklega við því að sveitarfélögin fái möguleika til að afla sér tekna með rýmri heimildum til álagningar sem er að vísu ekki skattahækkun nema að hluta til, ekki nema þær séu nýttar og skattalækkun kemur þar á móti. En það kemur mjög á óvart ef þetta er tillagan að skattheimtan sé of lítil. Það sé ráðið til að draga úr þenslu.

Varðandi sölu hlutafjár í bönkunum má vera að það rýmki möguleika bankanna til útlána. Það er þörf á því að útlánastefna þeirra sé aðhaldssöm, ég tek undir það, en einhverjir hljóta að kaupa þetta hlutafé og það er þá fé sem er kallað inn til þeirra hluta.