Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 15:01:53 (977)

2000-10-31 15:01:53# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna undirtektum hv. formanns fjárln. við gagnrýni mína um að í frv. til fjáraukalaga skuli vera mörg atriði sem ættu með miklu eðlilegri hætti heima í frv. til fjárlaga og þeim orðum hans að hann muni beita sér fyrir því ásamt nefndinni að koma enn betra skikki á þessi mál milli fjárln. og Alþingis annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar.

Varðandi sendiráðið stendur hér: ,,Óskað er eftir 958 millj. kr. aukafjárveitingu.`` Vafalaust er hárrétt að sú samþykkt að stofna sendiráð bæði í Japan og Kanada hafi legið fyrir. Hins vegar stendur í textanum:

,,Ríkisstjórnin ákvað í febrúar árið 2000 að opna sendiráð í Japan á næsta ári.``

Til þess að ríkisstjórnin gæti gert þetta ákvað hún í skyndingu að veita sér 958 millj. kr. aukafjárveitingu, ekki aðeins til Japan, heldur líka til Kanada.

Í fyrsta lagi er það gríðarlega há upphæð sem er þarna verið að taka skyndiákvarðanir um. Ríkisstjórnin gat alveg eins tekið þá ákvörðun fyrir jól og látið þetta koma fram í fjárlögum og fengið þar eðlilega umræðu og afgreiðslu. Það er það sem ég er að gagnrýna. Þessi upphæð er svipuð og sú sem átti að skera niður í endurgreiðslum á lyfjakostnaði. Sumir hefðu kannski alveg eins viljað fá hækkun á það á fjáraukalögum, að það væri bætt, en ekki væri verið að skera þar niður. Það eru sjónarmið, ekki síst þegar það snertir svona háar upphæðir sem eiga að koma þarna inn í fjáraukalög en fara ekki eðlilega í gegnum þingið.