Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 15:06:53 (980)

2000-10-31 15:06:53# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Endalaust má deila um þetta mál en ég rakti áðan í ræðu minni að menn stóðu frammi fyrir tilboði um ákveðið húsnæði í Japan. Auðvitað má deila um hve mikill hluti af rekstrarkostnaði eða undirbúningskostnaði, ef það er fram yfir húsnæðiskostnaðinn, á að fara inn á fjáraukalög eða fjárlög. Ég er tilbúinn til að fara yfir það með hv. þm. í fjárln. þegar þar að kemur. En ég tel að ákvörðun um þessa fjárfestingu eigi heima á fjáraukalögum og sé ekki neitt athugavert við það í sjálfu sér. Staðið var frammi fyrir þessum kosti, tilboði um þetta húsnæði, og ekki voru möguleikar á því að bíða eftir því að taka afstöðu til þeirra mála enda get ég bætt því við að þetta mál var kynnt í utanrmn. í sumar, ráðuneytið kynnti það þar, og þau áform sem voru þar uppi. Málið var ekki tekið upp í framhaldi af þeim fundi. Ég er ekki að skýra frá umræðum þar vegna þess að þær eru trúnaðarmál og ég ætla ekki að brjóta þann trúnað. En þetta var mál sem hefur verið á döfinni og tilboð kom um þetta húsnæði sem hentaði mjög vel og ekki varð undan því vikist að svara því.