Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 15:27:56 (982)

2000-10-31 15:27:56# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er athyglisvert hversu hv. þm. Sjálfstfl. taka lítinn þátt í umræðum um fjáraukalög. Hv. þingmenn virðast ætla að láta hæstv. fjmrh. einan um umræðuna og er það í raun mjög athyglisvert í framhaldi af ýmsum ummælum sem þeir hv. þingmenn létu falla hér á síðasta ári þegar umræður stóðu sem hæst um fjárlög og það hvernig fjáraukalög mundu hugsanlega líta út á þessu ári. Ég kem nánar að því síðar í ræðu minni.

Hæstv. ráðherra gat þess að fjmrn. hefði í kjölfar þeirrar umræðu sem átti sér stað hér um fjárlög síðast gefið út svokallaðar verklagsreglur, en hæstv. ráðherra fjallaði minna um það hvernig til hefði tekist með framkvæmd þeirra reglna. Vonandi er að ekki eigi eftir að koma í ljós að þar hafi eitthvað ekki gengið eins og best verður á kosið. Umræða um það verður hins vegar að bíða þar til frekari upplýsingar liggja fyrir.

Þá vék hæstv. ráðherra að því að ljóst væri að í fjáraukalagafrv. nú vantaði nokkrar tölur og nefndi m.a. niðurstöðu svokallaðrar tekjustofnanefndar, 700 milljónirnar sem mundu væntanlega koma inn og gat þess einnig að hugsanlega gætu komið fram tölur vegna kaupa ríkissjóðs á Orkubúi Vestfjarða.

Vonandi er að ekki skorti fleira í þetta frv. Það kæmi að vísu ekki mjög á óvart því að ýmislegt virðist liggja í loftinu um að við megum eiga von á að fleiri tölur eigi eftir að koma fram.

[15:30]

Það er athyglisvert að skoða yfirlit sem birt er fremst í frv. til fjáraukalaga, á bls. 5. Þar eru einmitt tekin út ráðuneytin og fróðlegt að sjá að þar er útkoman sú, og ekki í fyrsta sinn, herra forseti, að oddvitar ríkisstjórnarinnar virðast ganga hvað léttast um gleðinnar dyr þegar kemur að fjáraukalögum. Ljóst er að kostnaður eykst um 30% hjá hæstv. utanrrh. og tæplega 10% hjá hæstv. forsrh. en þeir raða sér í efstu sætin. Í þriðja sæti er hæstv. iðnrh. með tæplega 8% og síðan hæstv. umhvrh. með rúmlega 6%. Aðrir hæstv. ráðherrar virðast ná að halda sér undir 5% markinu og er vonandi að svo verði áfram þegar öll kurl koma til grafar.

Hins vegar er býsna athyglisvert að sjá á þessari töflu, og líklega það athyglisverðasta, að æðsta stjórn ríkisins, þ.e. embætti forseta Íslands, hv. Alþingi, ríkisstjórnin sjálf, Hæstiréttur, umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun halda sér á núlli. Þar er væntanlega komin fyrirmyndin sem aðrir eiga að horfa til. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að sú ágæta stofnun sem við erum stödd í stendur nú í miklum framkvæmdum. Ýmsar sögusagnir hafa gengið um að þar væri ekki eftir öllum áætlunum farið. Hér er hins vegar staðfesting á því, væntanlega, að þær sögusagnir séu algerlega úr lausu lofti gripnar. Hér í töflunni, eins og ég sagði, kemur fram talan núll sem þýðir þá væntanlega, miðað við lög um fjárreiður ríkisins, að ekki hafi verið heimilaðar neinar greiðslur úr ríkissjóði til þessara framkvæmda fram yfir það sem áætlað var. Ef þetta er reyndin þá væri fróðlegt fyrir aðrar stofnanir að horfa hingað til fyrirmyndarinnar því að vissulega hafa menn þá staðið sig býsna vel í þeim framkvæmdum sem hér standa yfir.

Það væri fróðlegt, herra forseti, ef hæstv. fjmrh. gæti staðfest þá niðurstöðu sem mér virðist blasa við með því að skoða þessa töflu og frv. til fjáraukalaga. Það er ekki minnst á að neitt sé í vændum, hæstv. ráðherra minntist a.m.k. ekki á að hér mætti eiga von á útgjöldum.

Annars staðar megum við búast við, miðað við það sem heyrst hefur, m.a. í viðtölum okkar í fjárln. við ýmsa aðila, að eitthvað gæti verið í farvatninu. Ég nefni ýmsar heilbrigðisstofnanir en þegar við fjölluðum um þær við fjárlagagerðina síðast fóru ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. nokkuð geyst. Ég vil, með leyfi forseta, vitna til nokkurra ummæla. Þau fyrstu hljóða svo:

,,En höfum við kjark og dug til þess að fella niður heimildir á fjáraukalögum? Við erum ekki að setja inn hótanir um hvað við munum gera, hvernig við munum bregðast við án þess ætla að standa við það, það liggur ljóst fyrir. Það er líka ljóst ef svo skyldi fara að einhverjir stjórnendur standi sig ekki í því að fara að fjárlögum og séu út úr korti með sinn rekstur, þá eru þeir náttúrlega óhæfir ... ``

Áfram heldur hv. þm.:

,,Þá er að sjálfsögðu ekkert annað að gera en að þeir taki pokann sinn og aðrir betri taki við, það gengur þannig í rekstri. Þannig þarf það að verða, menn þurfa að standa sig í rekstrinum.``

Herra forseti. Hér er talað mjög skýrt og því er eðlilegt að spurt sé hvort þessi ummæli séu ástæða þess að hv. þm. Sjálfstfl. sjást bara hreinlega ekki í salnum, ekki nokkur einasti maður. (Gripið fram í.) Fyrirgefið, hv. þm. Drífa Hjartardóttir situr hér undir þessu öllu saman. Það er rétt að geta þess að hún viðhafði ekki þessi ummæli en fram skal haldið. Sami hv. þm. og ég vitnaði í áðan bætti við, með leyfi forseta:

,,Auðvitað verða gerðir þjónustusamningar og það er það sem út af stendur núna, þjónustusamninga er eftir að gera við svo margar heilbrigðisstofnanir og það er auðvitað sú vinna sem menn fara í mjög fljótlega.``

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh.: Er ekki búið að ljúka gerð allra þessara þjónustusamninga sem fljótlega átti að fara í þegar þessi ummæli voru viðhöfð þann 10. desember 1999?

Enn hélt hv. þm. áfram, með leyfi forseta:

,,Ég hef verið fullvissaður um það að lögum um fjárreiður ríkisins og lögum um opinbera starfsmenn verði fylgt þannig að framkvæmd fjárlaga verði eðlileg og rétt á árinu 2000. Lögin eru til eins og ég sagði, þeim þarf að sjálfsögðu að hlíta og ég treysti orðum hæstv. fjmrh. að þannig verði fram gengið.``

Herra forseti. Með vísun til þess sem hér er sagt um lög um fjárreiður ríkisins þá leikur a.m.k. vafi á að markmiðunum hafi öllum verið náð. Enn spyr ég: Getur þetta verið ástæðan fyrir því að hv. þm. sem svo töluðu og hægt væri að vitna meira í, nokkrir hv. þm. Sjálfstfl., í umræðum um fjárlög í fyrra, sjást nú ekki hér í salnum?

Herra forseti. Víða er hægt að bera niður í þessu ágæta frv. til fjáraukalaga. Ég mun nú fara yfir nokkra málaflokka og tína til einstök dæmi sem sýna það að því miður virðast áætlanir ekki vera nægilega traustar eða þá að ekki er nægilega farið eftir lögum um fjárreiður ríkisins. Ég vil byrja á forsrn. en á bls. 60 í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Í öðru lagi er 10 millj. kr. tímabundið framlag í þrjú ár til styrktar íslenskum fræðum og íslensku bókasafni við Manitoba-háskóla í Kanada. Framlagið er í samræmi við ríkisstjórnarsamþykkt frá 26. nóvember 1999.``

Ég vek sérstaka athygli á þessu. Hér er að sjálfsögðu um hið besta mál að ræða en samþykktin í ríkisstjórninni var gerð 26. nóvember 1999. Þannig er ljóst að þessi upphæð hlýtur að hafa átt heima á fjárlögum fyrir árið 2000. En undir sama ráðuneyti, á bls. 61, segir varðandi lið 251 Safnahús, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi er 37 millj. kr. framlag til kaupa á ýmsum húsbúnaði í Safnahús en Endurbótasjóður, sem fjármagnar endurbyggingu hússins, greiðir ekki slíkan búnað. Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir að sjóðurinn greiddi búnaðinn og því var ekki gert ráð fyrir þessum útgjöldum.``

Herra forseti. Hvað er þarna á ferðinni? Þekktu þeir sem sömdu og fóru svo gaumgæfilega í gegnum fjárlagafrv. ekki reglurnar eða lögin um Endurbótasjóð eða neitaði Endurbótasjóður að greiða? Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. því að hann er eins og bent hefur verið á áður einn ráðherra í salnum. Við verðum að vona að hann geti gefið okkur rétt svör við þessari spurningu.

Áfram skal haldið og næst litið á menntmrn. Þar er enn fjallað um safnahús, á bls. 62:

,,Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir 95 millj. kr. til framkvæmdanna en útgjöldin urðu 63 millj. kr. meiri og er sótt um þá fjárhæð.``

Enn er verið að tala um Safnahúsið við Hverfisgötu. Hér er um 66% hækkun að ræða. Einhver hlýtur skýringin að vera og það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi svörin við því hvað fór þarna úr böndum. Svona áætlunargerð hlýtur a.m.k. að kalla á að nánar verði yfir farið og skoðað.

Herra forseti. Hér hefur nokkuð verið rætt um aukin útgjöld utanrrn. og sérstaklega varðandi nýjar byggingar úti í hinum stóra heimi, annars vegar í Tókíó og hins vegar í Ottawa. Ég geri út af fyrir sig ekki athugasemdir við að þarna sé farið í framkvæmdir eða kaup. Hins vegar verður að benda á, í samhengi við það sem við höfum æðioft sagt, að því miður virðist áætlunargerðin vera á of veikum grunni. Það er ekki mjög langt síðan fjárlagafrv. var dreift og þar voru nefndar tölur í sambandi við þessi kaup, annars vegar varðandi Tókíó og þar gert ráð fyrir að kostnaðurinn yrði um 700 millj. kr. Í frv. til fjáraukalaga er talan orðin 800 millj. kr. Hér er um býsna mikla hækkun að ræða á nokkrum vikum eða rúmlega 14% hækkun. Ef fram heldur sem horfir þá veit ég ekki hver upphæðin verður.

Sama á við þegar við horfum yfir hafið til Kanada. Þar hefur hækkunin einnig orðið mjög mikil. Kostnaðurinn í Ottawa hefur hækkað um rúm 20% og enn vek ég athygli á því hversu veikar forsendurnar eru, annaðhvort í fjárlagafrv. eða frv. til fjáraukalaga, því að hér hefur töluvert breyst á nokkrum vikum.

Næst ber mig niður hjá landbrn. Þar er fjallað um stofnun sem ekki er mjög stór, einangrunarstöð gæludýra í Hrísey. Ég vek hins vegar athygli á því að eitthvað hefur málum verið blandið, annaðhvort í vinnslu frv. til fjárlaga eða frv. til fjáraukalaga, vegna þess að hér skortir örlítið á samræmið. Neðst á bls. 65 segir varðandi stækkun einangrunarstöðvar gæludýra í Hrísey:

,,Það sem á vantar verður fjármagnað með þjónustugjöldum.``

Í 7. gr. fjárlagafrv., á bls. 76, er hins vegar fjallað um heimildir. Þar segir að fjmrh. sé heimilt, með leyfi forseta:

,,Að selja íbúðarhúsið Austurveg 8, Hrísey, Eyjafjarðarsýslu, og verja andvirðinu til uppbyggingar einangrunarstöðvar gæludýra í Hrísey.``

Hér þarf, herra forseti, að fá skýringar. Á einangrunarstöðin að fjármagna þetta með þjónustugjöldum eða er þarna verið að velta fyrir sér íbúðarhúsinu Austurvegi 8, Hrísey, nema hvort tveggja sé? Nauðsynlegt er að fá upplýst hvar villan liggur eða hver skýringin er á þessu misræmi.

Varðandi dóms- og kirkjumrn. kemur fram athyglisverður þáttur sem vekur spurningar um hvort menn hafi farið nákvæmlega eftir lögum um fjárreiður ríkisins. Hér segir, með leyfi forseta, á bls. 67 og er þar átt við prófanefnd vegna öflunar hæstaréttarlögmannsréttinda:

,,Ákvæði um nefndina var bætt við í meðförum Alþingis og var því ekki gert ráð fyrir henni í lagafrumvarpinu sem kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis byggðist á og sem fjárveiting fjárlaga miðast við. Nefndin tók til starfa í nóvember 1998 ...``

Það tekur býsna langan tíma til að átta sig á því að mistök hafi verið gerð vegna þess að það sem menn eru hér að ræða um er frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2000. Það hlýtur að hafa verið eðlilegt að taka mið af þessum upplýsingum fyrir fjárlög ársins 2000.

Undir sama ráðuneyti á bls. 67 er kannski eitt athyglisverðasta málið sem ég rakst á við lestur þessa ágæta frv. Þar er verið að fjalla um liðinn 427--428 Sýslumaðurinn í Neskaupstað og á Eskifirði. Miðað við það sem hér segir er ljóst að ráðuneytið hefur greinilega talið ástæðu til að fara ekki að fjárlögum. Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna þess að það sem hér er um að ræða í frv. til fjáraukalaga er í anda þess sem kom á borð fjárln. rétt undir lok starfa hennar við fjárlög fyrir árið 2000. Þá var þessari beiðni ráðuneytisins synjað í nefndinni. Hún fór þar af leiðandi ekki inn í 3. umr. fjárlagafrv. og var þar af leiðandi ekki í fjárlögum. Hins vegar virðist ráðuneytið hafa tekið sér það vald að fara samt sem áður fram með sínar hugmyndir. Hverjar eru þessar hugmyndir? Jú, að færa 3,6 millj. kr. frá þessum lið og yfir á safnlið sýslumannsembætta. Verði þetta samþykkt þá er ekki staðið við munnlegt heiðursmannasamkomulag sem gert var í dómsmrn., að vísu af hæstv. fyrrv. dómsmrh., um að við sameiningu embættanna fengju þau að njóta þess hagræðis sem af því væri til að byggja embættin upp og styrkja þau. Ég vil vekja athygli á þessu en að sjálfsögðu mun frekar um þetta fjallað í fjárln. Vonandi verður hægt að kippa þessu í liðinn.

[15:45]

Enn er rétt að vekja athygli á því hversu slakar ýmsar áætlanir eru. Á bls. 70 er verið að ræða um nauðsynlegar framkvæmdir við byggingu lögreglustöðvar á Hólmavík en svo illa virðist hafa tekist til í áætlunargerðinni að farið er fram á rúmlega 40% hækkun á því sem áætlað var til framkvæmdarinnar. Að vísu, sem óvenjulegt er í frv., er gefin á þessu ákveðin skýring og segir m.a., með leyfi forseta, að hækkunin hafi m.a. verið ,,vegna fárra tilboða sem bárust í verkið og fjarvistarálags sem greiða þarf til verktaka``. Hér hefur greinilega verið um töluvert álag að ræða í þeim efnum og væri nauðsynlegt að fá nákvæma skýrslu hér um þó ekki væri nema í fjárln.

Áfram skal flett. Að vísu verð ég að fara örlítið hraðar en ég ætlaði á tíma mínum en rétt er að vekja sérstaka athygli á yfirskattanefnd. Hér er komið að ráðuneyti hæstv. fjmrh. að skoða vegna þess að aukafjárveitingin sem sótt er um núna er 14,5 millj. vegna stofnbúnaðar og innréttinga í nýju húsnæði yfirskattanefndar. Því miður hef ég ekki undir höndum þær tölur sem eru í fjárlögum þessa árs. Fróðlegt væri að vita hversu mikil aukning er á ferðinni en það er ekki síður athyglisvert að bera þetta saman við það að í fjáraukalögum fyrir árið 1999 var einnig veitt 21 millj. kr. til að mæta útgjöldum við breytingar á húsnæði hjá þessari annars ágætu nefnd sem segir að í þessi tvö ár hefur í fjáraukalögum verið veitt rúmlega 35 millj. kr. til að bæta við það sem fram úr hefur farið við það sem áður var áætlað.

Herra forseti. Á bls. 81 er býsna athyglisvert atriði sem nauðsynlegt er að fá skýringar á og væri fróðlegt ef hæstv. fjmrh. gæti gefið þær en það er væntanlega hæstv. iðnrh. sem veit betur um málið. En neðst á síðu 81 segir, með leyfi forseta:

,,Einnig er farið er fram á 10 millj. kr. framlag til Byggðastofnunar sem renni til að styrkja vetrarsamgöngur á snjóþungum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins.``

Herra forseti. Ég vil taka sérstaklega fram að ég tel að styrkja þurfi vetrarsamgöngur á snjóþungum svæðum og er það býsna mikilvægt og þarf örugglega að auka fjármuni til þess en ég veit ekki betur en í að samgrn. sé verið að sýsla við þessi mál. Þess vegna er óhjákvæmilegt að fá nánari skýringar á því hvernig á því stendur að þessi liður er kominn undir Byggðastofnun.