Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 15:48:17 (983)

2000-10-31 15:48:17# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka fyrir prýðilegar umræður og málefnalegar um þetta frv. og ýmislegt sem því tengist því eins og verða vill ber ýmislegt á góma í umræðum um fjárlagafrv. og fjáraukalagafrv.

Ég vil ekki fara mikið út í einstök atriði en skal þó svara eftir mætti ýmsu sem hefur komið fram en verð að öðru leyti að vísa mönnum á þá umfjöllun sem er fram undan varðandi einstaka þætti í fjárlaganefndinni.

Ég vil víkja aðeins að því sem margir hafa gert að umtalsefni og er vissulega mikilvægt málefni, þ.e. spurningunni um það hvaða tillögur er eðlilegt og réttmætt að gera í fjáraukalagafrv. Hvenær eiga tillögur um fjárveitingar heima þar og hvenær eiga þær heima í fjárlagafrv.?

Lesið hefur verið upp úr lögunum um fjárreiður ríkisins og þær reglur eru í sjálfu sér alveg skýrar og ég man að það mál fékk nákvæma umfjöllun á sínum tíma í þinginu. Hins vegar geta verið, þó að reglurnar séu skýrar, álitamál og vafaatriði sem koma upp í þessu efni.

Tökum sendiráðsbyggingarnar sem ítrekað hefur verið talað um. Gert er ráð fyrir því í fjáraukalagafrv. að ráðstafa þar ákveðnum fjármunum. Ekki er búið að inna þær greiðslur af hendi, verið er að leita heimilda til að gera það á þessu ári vegna þess að samningaumleitanir um þessar húsbyggingar hafa staðið yfir nú þegar á þessu ári og allt eins líklegt að þeim ljúki fyrir áramót. Menn eru með ákveðnar byggingar í huga, annars vegar í Ottawa og hins vegar í Tókíó. Ef samið verður um þessi hús, að kaupa þau eins og skynsamlegt er talið og skynsamlegra en að leigja, þá fellur til skuldbinding á ríkissjóð um leið og sá samningur er gerður. Ef það gerist fyrir áramót er rétt að hafa borð fyrir báru hvað það varðar í þessum heimildum. Um það snýst málið. Það er vegna þess að ætlunin var að ljúka þessu máli og með tilliti til þeirrar samningsstöðu sem er uppi á báðum stöðum gagnvart seljandanum er nauðsynlegt að geta gert það nú þegar.

Annað mál er svo t.d. El Grillo. Ekki er eins augljóst hvort það ætti að vera á fjáraukalögum eða fjárlögum en hugmyndin er sú að setja það mál af stað þannig að hugsanlega gæti fallið til skuldbinding á þessu ári og þess vegna er þetta gert með þessum hætti.

En ég vil taka undir það alveg sérstaklega sem hefur vakað fyrir þeim þingmönnum sem hafa ljáð máls á þessu að það á ekki að opna fyrir misnotkun á fjáraukalagaheimildinni og þeim reglum með þeim hætti sem tíðkaðist árum og áratugum saman og sérstaklega ekki á meðan fjármálaráðherrann hafði bara einn aukafjárveitingavaldið og tók stundum ákvarðanir þvert á það sem þingið hafði hafnað áður. Við megum ekki lenda í þeim sama farvegi og eigum að gæta okkar með þessa hluti og það höfum við reynt að gera í þessu frv. eins og áður þó vissulega sé hægt að viðurkenna að í þessu frv. eru málefni sem má deila um og hefðu hugsanlega frekar átt heima í fjárlögunum en þó eru þar alls staðar skýringar af því tagi sem ég var núna að gefa.

Varðandi það hvort greiðslur eru inntar af hendi er það líka mikilvægt að það er yfirleitt aldrei gert fyrr en eftir að heimildin er komin. Þó kemur það fyrir í einstöku undantekningartilfellum og þá er það á ábyrgð mína sem fjármálaráðherra og viðkomandi fagráðherra og aðeins gert ef aðstæður eru það knýjandi að ekki verður beðið með greiðslu.

Ég er því í rauninni að taka undir með mönnum varðandi þetta mál, þetta atriði, en jafnframt að gefa ákveðnar skýringar á nokkrum einstökum atriðum.

Auðvitað er það því miður stundum þannig að þær áætlanir sem menn hafa gert varðandi einstakar framkvæmdir hafa ekki staðist. Það á við um lögreglustöðina á Hólmavík sem varð því miður dýrari en búið var að veita fjármagn til en samt mál sem þurfti að klára og var gerður verksamningur um sem þurfti að standa við og borga.

Það á líka við um Þjóðmenningarhúsið. Þar fóru útgjöldin fram úr því sem reiknað hafði verið með. Bæði að því er varðar endurbótasjóðinn sem er vistaður í menntmrn. og svo þeim hluta útgjaldanna sem fóru í gegnum forsrn. Sem betur fer er það nú þannig að þess háttar umframútgjöld eru mjög á undanhaldi. Ef maður skoðar hvað er verið að fara fram á miklar heimildir til umframútgjalda í þessu frv., 5,7 milljarða, miðað við heildarútgjöldin í fjárlögum ársins 2000, er það miklu lægra hlutfall en oft hefur verið, um 3% af heildarútgjöldum ársins 2000 og það liggur við að maður geti sagt að það sé innan skekkjumarka. Margt af því er vegna stórra ákvarðana eins og um sendiráðin og þess háttar hluti sem er ekki vegna almennrar umframkeyrslu og á sér þar af leiðandi þessar sérstöku skýringar.

Einstök mál hafa menn nefnt og hafa haft rétt fyrir sér í því að hefðu sennilega frekar átt að koma inn í fjárlögin á þessu ári. Ég hygg að fyrsta greiðsla varðandi háskólabókasafnið í Manitoba hefði að réttu lagi frekar átt heima í fjárlögum þessa árs. Þar eru mistök á ferðinni. Slík greiðsla er inni í fjárlögunum 2001 en til að leiðrétta þau mistök af því að þetta féll niður fyrir vangá, var þetta einnig sett inn í fjáraukalögin til þess að unnt sé að greiða það sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að gera gagnvart háskólanum í Manitoba og starfsemi Vestur-Íslendinga þar.

Að því er varðar sendiráðin og mismuninn á fjárlagafrv. og fjáraukalagafrv. er það vegna þess að betri vitneskja var fyrir hendi nokkrum vikum eftir að fjárlagafrv. kom fram. Þess vegna fór nýrri og réttari tala inn í fjáraukalagafrv. og kannski ekki miklu við það að bæta. Menn voru að vonast til þess að þetta gæti verið lægri tala en það reyndist ekki raunin þó ekki sé endanlega búið að ganga frá þeim samningum eins og ég sagði áðan.

Prófanefndin, sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, ég býst við því að það sé svipað mál og með háskólabókasafnið að þar hafi verið einhver gleymska á ferðinni. Það getur því miður komið fyrir í þessu kerfi þó það sé býsna gott að eitthvað slíkt falli niður og þá verða menn að leiðrétta það við fyrsta tækifæri.

Hvað varðar þjónustusamninga er sí og æ verið að vinna að gerð slíkra samninga jafnt og þétt, ekki er hægt að segja að búið sé að gera alla þá samninga sem ætlunin er að gera en það miðar í áttina.

Að því er varðar yfirskattanefnd þá er þar um það að ræða að verið var að koma þeirri ágætu stofnun, sem starfar eins og kunnugt er eins og dómstóll, fyrir í nýju húsnæði. Kannski má segja svipað og um Hólmavík og Þjóðmenningarhúsið að þar féll til umframkostnaður, og það er leitt. Ég ber að sjálfsögðu ábyrgð á því þar sem þessi stofnun heyrir undir fjmrn. en við reynum að koma því í réttan farveg og læra af reynslunni á þessum sviðum. En það er óhjákvæmilegt að biðja um þessa fjárheimild til þess að geta gert upp málið.

Varðandi snjóþungu svæðin þá er það mál sem annar þingmaður hér inni átti frumkvæði að og byggðist á því að greiða fyrir samgöngum að vetri til þar sem er sérstaklega erfitt vegna snjóþyngsla. Í stað þess að grípa til sértækra ráðstafana í öðrum lögum var ákveðið að fara þessa leið og talið eðlilegt að Byggðastofnun, sem hefur með byggðamálin að gera eins og allir vita, ráðstafaði því fjármagni. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það, ég tel að það falli eðlilega að verkefnum Byggðastofnunar.

Að öðru leyti vil ég vísa fyrirspyrjendum á meðferðina sem er fram undan í fjárln. um þetta frv. en þakka á ný fyrir ágæta umræðu.