Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 16:19:05 (986)

2000-10-31 16:19:05# 126. lþ. 16.9 fundur 115. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er verið að fjalla um mjög mikilvægt mál í þeirri till. til þál. sem við ræðum um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég tel að margt sem kemur fram í grg. með tillögunni eigi mjög mikið erindi í þá umræðu sem hefur farið fram í þingsölum, m.a. í gær um málefni og réttarstöðu barna. Það er alveg rétt sem fram kemur í tillögunni og grg. að með fullgildingu barnasáttmálans skuldbinda íslensk yfirvöld sig til að tryggja íslenskum börnum réttindi samkvæmt sáttmálanum. En eins og hér segir: ,,Eins og fram hefur komið hafa verið stigin ákveðin skref í átt til réttarbótar.`` En jafnframt er tekið fram að ,,samkvæmt íslenskum rétti fá alþjóðlegir samningar ekki sjálfkrafa lagagildi að landsrétti þótt þeir hafi verið fullgiltir, heldur eru þeir skuldbindandi að þjóðarrétti``. Ég held því að það sé ákaflega mikilvægt að farin verði sú leið sem hér er lögð til að ,,fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að gera úttekt á lögum sem varða réttarstöðu barna með það að markmiði að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem staðfestur hefur verið af hálfu Íslands``.

Ég held einmitt að sú leið, sem sett er fram og það markmið að dómsmrh. skoði réttarstöðu barna með hliðsjón af því að hann uppfylli skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, styðji mjög við það mál sem við ræddum í gær sem er heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga. Um hana urðu nokkrar umræður í gær en hún felur í sér að að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga en á grundvelli þeirrar stefnumótunar er gert ráð fyrir ákveðinni framkvæmdaáætlun til fimm ára.

Liðin eru rúmlega tíu ár frá gildistöku barnasmáttmála Sameinuðu þjóðanna og það kemur einmitt fram í skýrslu sem ríkisstjórnin hefur kynnt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að gert er ráð fyrir því að tillaga um heildarstefnumótun og framkvæmdaáætlun í málefnum barna og unglinga verði samþykkt á Alþingi. Það er mjög veigamikið að það komi fram og mikilvægt að ná sátt um það á Alþingi að fara þá leið sem bæði er mörkuð í þeirri tillögu sem við fjöllum um og eins þeirri tillögu sem rædd var í gær. Það kemur einmitt fram í tillögunni að þótt barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi lýst yfir ánægju með ýmsa þætti í framkvæmd barnasáttmálans hér á landi hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við aðra þætti framkvæmdarinnar. Í grg. með till. til þál. kemur einmitt fram að enn skorti á að íslenskur réttur uppfylli ákvæði barnasáttmálans og að langt sé í land með að lagaframkvæmd sé í samræmi við anda sáttmálans, þ.e. að börn og ungmenni innan 18 ára aldurs njóti þeirrar verndar sem sáttmálanum er ætlað að veita. Ég held einmitt í því sambandi að ástæða sé til þess að nefna að við höfum ekki nægjanlega rætt það á þingi eða skoðað það hvort ástæða sé til að fara í breytingar á ýmsum lögum sem tryggja betur réttarstöðu barna á aldrinum 16--18 ára í tilefni af hækkun á sjálfræðisaldrinum. Ef ég man rétt liggur fyrir skýrsla frá dómsmrh. um hvaða lagabreytingar séu nauðsynlegar, æskilegar eða rétt sé að fara í, í tilefni þeirra laga sem samþykkt voru hér á Alþingi um hækkun á sjálfræðisaldrinum. Mér finnst að Alþingi eða allshn. þingsins þurfi að gefa sér tilefni til þess að fara yfir þá skýrslu og skoða hana með tilliti til æskilegra breytinga á ýmsum lögum.

Ég nefni t.d. tekjuskattslög sem snerta barnabætur sem koma væntanlega fljótlega til umræða. Það er spurning hvort barnabætur eigi ekki að ná til 18 ára aldurs og hvort ekki sé brýnt í tengslum við þá ákvörðun sem Alþingi hefur tekið um hækkun á sjálfræðisaldrinum. Það er einmitt í samræmi við það sem kemur fram í tillögunni að megininntak barnasáttmálans sé að skilgreina alla einstaklinga undir 18 ára aldri sem börn.

Mér finnst líka athyglisvert sem fram kemur í tillögunni og bent er á í grg. að vakin er athygli á því og sett fram sú spurning hvort sú kynning sem barnasáttmálinn hafi fengið sé fullnægjandi og hvort ekki sé rétt að barnasáttmálinn verði kennsluefni í grunnskólum og framhaldsskólum sem liður í námskeiði um mannréttindi og hvort ekki væri rétt að þýða sáttmálann á tungumál sem innflytjendabörn skilji og dreift sé til þeirra. Ég held að það sé afar mikilvægt að það verði gert og farin verði sú leið sem lögð er til í þessari tillögu og að við fáum þá heildarsýn sem lögð er til og yfirsýn yfir hvernig við stöndum að því að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Tillagan hefur verið lögð fram á nokkrum þingum en ekki náð fram að ganga. Ég tel afar brýnt að tillagan sé skoðuð einmitt samhliða tilögunni um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga og væntanlega fer þessi tillaga í sömu nefnd og kemur þá aftur hingað til kasta þingsins. Það er einmitt mikilvægt, sem kemur fram í tillögugreininni, að það á að meta hvort rétt sé að lögleiða sáttmálann í heild sinni eins og mannréttindasáttmála Evrópu og mikilvægt einnig að að þessu verki komi fulltrúar Barnaverndarstofu, Barnaheilla og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Greinargerðin með tillögunni er mjög vel unnin og rekur raunverulega sögu barnaverndarmála innan stjórnkerfisins. Ég held að afar mikilvæg breyting hafi átt sér stað þegar málefni barna voru að talsverðu leyti flutt frá menntmrn. yfir til félmrn. með breytingu á lögum 1992. Ég held að sá flutningur hafi verið mjög jákvæður fyrir stöðuna í málefnum barna og hafi leitt mjög margt gott af sér sem íslensk börn búa að og er rakið í tillögunni og ég hef tímans vegna ekki tækifæri til þess að ræða hér.

Ég er meðflm. að tillögunni og vænti þess að hún fái framgang á hv. Alþingi.