Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 16:46:19 (992)

2000-10-31 16:46:19# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[16:46]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um tímareikning á Íslandi. Frv. þetta er í einum fjórum greinum og felur það í sér að taka upp sumartíma hvarvetna á Íslandi sem mundi hefjast kl. 01.00 að miðtíma Greenwich síðasta sunnudag í mars og ljúka kl. 01.00 að miðtíma Greenwich síðasta sunnudag í október. Þessar tímasetningar eru í samræmi við það sem gildir í Evrópusambandsríkjum og er þess vegna vel við hæfi að þessi umræða skuli fara fram nú í fyrstu vikunni eftir að vetrartími hefur aftur byrjað í Evrópu á þessu hausti.

Frumvarp þetta var lagt fram á þremur löggjafarþingum, 120., 122. og 125., en varð ekki útrætt. Ég vonast því til þess að hv. þingnefnd sem fær þetta mál til meðferðar geti notað tímann í vetur og afgreitt þetta úr nefnd þannig að þingið megi taka afstöðu til þessa máls.

Um þetta mál hefur verið töluvert mikið rætt bæði hér innan þings og utan. Þetta mál var líka mikið rætt á vettvangi Evrópusambandsins og um þetta gerð merk skýrsla á þess vegum. Þar var m.a. fjallað um áhrif sumartíma á orkunotkun, heilbrigði, vinnuaðstæður, lífsstíl, landbúnað, umhverfisvernd, umferðaröryggi, ferðamennsku og afþreyingariðnað og niðurstaða skýrslunnar leiddi í ljós að það var ekkert meiri háttar vandamál því samfara að viðhalda sumartíma í ríkjum Evrópusambandsins.

Síðan má segja að það hafi verið ein aðalniðurstaða þessarar skýrslu, sem hefur líka verið ein aðalröksemdin almennt fyrir sumartíma í þeim löndum þar sem hann er, að þau birtuskilyrði sem sumartíminn hefur í för með sér hafi betri áhrif á möguleika fólks til þess að stunda útivist og hafi auk þess áhrif á mannlíf og annað að sumarlagi. Það hefur jákvæð áhrif á ferðamannaþjónustu og bætir almennt séð líf fólks. Þess vegna hefur það verið ákveðið í Evrópusambandinu að viðhalda sumartíma þar.

Helstu rökin fyrir því að taka upp sumartíma á Íslandi felast fyrst og fremst í því að þá erum við að stilla klukkuna þannig af að sólin verður hæst á lofti um klukkan hálfþrjú á daginn á vesturhluta landsins. Þetta þýðir að dagurinn er almennt tekinn fyrr miðað við það sem nú er og vinnutíma lýkur því fyrr á daginn á sumrin, því hefur þá almenningur meiri möguleika á því að njóta sólar og góðviðrisdaga á sumrin. Þess vegna eru líkur til þess að hér á landi geti skapast almenn sumarstemning á sumrin, fólk geti verið meira úti og notið þess. Það verður meira um að fólk geti t.d. borðað úti og almennt séð verið úti.

Þetta hefur líka mikil áhrif þegar birtu fer að bregða, ekki síst á haustin. Þá tökum við eftir því að það þrengist mjög um útivist og íþróttaiðkun. Knattspyrnuleikir eru yfirleitt allir færðir framar, golfáhugamenn hætta að geta stundað íþrótt sína og eins eru gönguferðir og útivist af því tagi takmörkunum háð þegar birtu fer að bregða.

Það hefur stundum verið rætt um það að fólk ætti einfaldlega þá að vakna fyrr á sumrin og hefja vinnu fyrr og hætta þá fyrr á daginn ef það kysi svo. En það er ákveðnum erfiðleikum bundið. Á mjög mörgum vinnustöðum hefur viðleitni verið í þessa átt og við tökum eftir því að þegar sumarið fer í hönd þá auglýsa mjög margir vinnustaðir sumartíma þar sem byrjað er klukkutíma fyrr en á vetrum og fólk þess vegna komið fyrr heim til sín á daginn. En það eru ákveðin takmörk á því hvað hægt er að gera í þessum efnum fyrst og fremst vegna þess að þjóðfélagið stillir sig almennt saman að þessu leyti og ef einn vinnustaður ætlar t.d. að hefja vinnu klukkan sjö þá rekst það iðulega á barnaheimilisopnanir og síðan hvenær skóli byrjar á morgnana þegar er komið fram í september eða á vorin þannig að það er ákveðnum takmörkunum háð hvað einstakir vinnustaðir geta tekið sig til og flutt til vinnutíma. Þó er það mjög algengt að vinna hefjist klukkan sjö á morgnana. En það er hins vegar mjög erfitt fyrir foreldra sem eiga börn að þurfa að sæta slíku ef börnin komast ekki í skóla eða á barnaheimilið fyrr en klukkan átta á morgnana.

Þannig má segja að öll rök sem snúa að því hvernig við skipuleggjum okkar líf og okkar vinnutíma mæli með því að taka upp sumartíma og nýta okkur þessar stundir á sumrin þegar við höfum birtuna og þegar við höfum þau hlýindi sem við á annað borð fáum á Íslandi.

Það hefur töluvert verið rætt um að það sé heilsuspillandi í sjálfu sér að stilla vinnutíma okkar þannig af að við höfum sólina ekki í hádegisstað, eða hæst á lofti, þegar við teljum klukkuna vera tólf. Menn ræða í því sambandi um líkamsklukkur og annað slíkt. En þá vil ég vísa til þess að það er að sjálfsögðu mjög einstaklingsbundið að því leyti hvenær fólki hentar að vakna á morgnana og fara að sofa á kvöldin og ekki er hægt að draga svo afdráttarlausar almennar ályktanir sem sumir gera í þessum efnum.

Ég vil sérstaklega benda á að á þeim vinnustöðum þar sem vinna hefst klukkan sjö á morgnana verður fólk að sæta því og ekki er séð að neinn munur sé á heilsufari á þeim stöðum þar sem byrjað er að vinna klukkan sjö eða þar sem byrjað er að vinna klukkan níu. Þess vegna held ég að allar þessar vangaveltur um líkamsklukku og slæm áhrif á svefn og annað byggi á ákaflega hæpnum forsendum. Ég vil líka vekja athygli á því, ef við skoðum hnattstöðu Íslands og hvernig aðrar þjóðir haga þessu, að vesturströnd Írlands liggur t.d. ekki svo miklu austar en austurströnd Íslands, svo maður tali ekki um norðvesturhluta Spánar sem er á svipaðri lengdargráðu. Ef við lítum t.d. til vesturstrandar Írlands, þegar sumartími er þar, þá er klukkan þar klukkutíma á undan klukkunni Austfjörðum og ekki hafa menn orðið varir við að sumartími á vesturströnd Írlands hafi nein sérstök heilsuspillandi áhrif á þá sem þar búa. Þvert á móti virðast þeir sem búa á vesturströnd Írlands vera almennt mjög lífsglatt fólk og hefur náð miklum efnahagslegum árangri á undanförnum árum. Ef við lítum t.d. líka til Norðvestur-Spánar, sem er á Evróputímanum, sem sé fylgir Mið-Evróputímanum, þá mundi ég segja að á sumrin þegar þeir eru með sinn sumartíma þá er sólin einmitt hæst á lofti þar um klukkan hálfþrjú eða á svipuðum tíma og sólin mundi vera hæst á lofti hér ef við tækjum upp sumartíma. Og ef við lítum á heilsufar þeirra sem búa á Norðvestur-Spáni þá verður ekki séð að þeirra heilsa sé neitt lakari en okkar. Þvert á móti þekki ég fólk sem býr þar og ég veit ekki betur en að í stakasta lagi sé með það og það er ekkert geðtruflaðra en annað fólk sem ég hef umgengist í gegnum tíðina. Þvert á móti þekki ég fólk frá þessum slóðum sem er hið kraftmesta og hefur náð miklum árangri í sínum störfum. Ég álít því að allar þær efasemdir sem hafa komið fram um sumartímann að því leyti til að hann sé heilsuspillandi og raski ró fólks, séu á mjög hæpnum forsendum reistar.

Þetta frv. hefur verið sent mjög mörgum til umsagnar í gegnum tíðina og umsagnir sem hafa borist hafa almennt séð verið jákvæðar. Ég vek sérstaka athygli á umsögnum sem hafa borist frá ferðaþjónustunni og umsögnum sem hafa borist frá aðilum sem eiga í miklum viðskiptum við Evrópu. Það er einfaldlega svo að í Vestur-Evrópu skipuleggja menn sinn vinnutíma og matarhlé og annað með þeim hætti að það fellur afar illa saman við það að tveggja tíma munur er á milli Íslands og Vestur-Evrópu. Það þarf ekki að tala við marga sem vinna hjá fyrirtækjum sem þurfa að hafa samskipti við Vestur-Evrópu á þeim tíma þegar sumartími er þar í gildi til að komast að því hvers konar erfiðleikum þetta veldur í þessum samskiptum, samskiptatíminn minnkar afar mikið þarna á milli.

Ég ætla í lokin, virðulegi forseti, að ítreka það að nefndin taki þetta mál til umfjöllunar alvarlega enn á ný og leitist við að afgreiða þetta mál nú í vetur. Tíminn til þess er nægur. Það hafa flest rök í málinu verið lögð fram. Ég tel að þetta sé mál sem Alþingi getur og eigi að taka afstöðu til.