Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:25:25 (998)

2000-10-31 17:25:25# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Hann ræddi um birtingartíma í október og ég vil þá spyrja hvort sólin setjist þá ekki einum klukkutíma síðar. Hann ræddi líka um að það væri líffræðilegt atriði varðandi svefnvenjur fólks. Við vitum að útlendingar sem koma til Íslands eiga mjög erfitt með að venja sig við birtuna á sumrin því að sólin er nánast á lofti allan sólarhringinn þannig að það breytist ekki.

Hann ræddi líka um kúabændur. Það má alveg breyta mjaltatíma í áföngum því einn klukkutími til eða frá skiptir nú ekki öllu máli. Svo má upplýsa hv. þm. um að það eru t.d. komnir mjólkurróbótar þar sem kýrnar ráða nákvæmlega sjálfar hvenær þær eru mjólkaðar.

Hann ræddi líka um veðurfréttir í útvarpi. Ég veit ekki betur en það hafi verið endalaust hringl með veðurfréttir í útvarpinu síðustu ár þannig að margir eru hættir að treysta á að ná veðurfréttum og fara bara inn á tölvuna og ná sér í veðurfréttirnar. Hann gerði lítið úr því að hægt væri að nýta kvöldin. Ég vil aftur á móti segja að það er um að gera að nýta kvöldin því að þá lygnir og að geta verið einmitt í útivist fram eftir kvöldi hlýtur að vera öllum til góða. Að fara að breyta klukkunni aftur á bak --- fyrr má nú aldeilis fyrr vera, segi ég.