Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:35:41 (1004)

2000-10-31 17:35:41# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt ég hefði komið inn á það sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson ræddi um. Hann spurði: Af hverju verða krakkarnir ekki vitlausir þegar þeir byrja í skóla á haustin? Var það ekki rétt eftir haft? Ég svaraði því og sagði: Það er vegna þess að klukkunni hefur ekkert verið breytt frá því þau hættu í skólanum á vorin.

Varðandi geðveiki eða sálarflækju Íslendinga, þá er ég því miður ekki menntaður til að geta svarað hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni um þetta mál. En hv. þm. á eflaust eftir að sækja sér upplýsingar um það. En þær upplýsingar sem ég hef sótt til lærðra manna um þetta mál segja mér að þetta hringl með klukkuna hafi veruleg áhrif. Þegar leitað verður umsagna um þetta mál verður sjálfsagt hægt að leita til þessara aðila og þeir munu ábyggilega gefa hv. þm. góða umsögn sem styður það sem ég hef milli handa, að þetta hringl með klukkuna hafi veruleg áhrif á sálarlíf fólks.