Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:42:42 (1009)

2000-10-31 17:42:42# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir röksemdafærslu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar og undir orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem töluðu hér áðan gegn frv. sem hér liggur fyrir. Mér líður eins og hér sé verið að flytja frv. sem stríðir gegn náttúrulögmálum.

Það er staðreynd að Íslendingar lifa nú þegar við tíma sem er ekki réttur út frá hnattstöðu landsins. Um það var tekin ákvörðun árið 1968 eins og hér hefur komið fram að festa skyldi sumartíma. Hér ríkir sem sagt sumartími allan ársins hring.

Hér er hins vegar verið að flytja frv. til laga um tímareikning á Íslandi og lagt til að á Íslandi skuli ríkja sumartími yfir sumartímann. Þetta stríðir gegn því sem er til staðar hér núna því hér ríkir sumartími allan ársins hring. Eru menn þá að flytja tillögu um að hér ríki sumar-sumartími?

Herra forseti. Mér finnst þessi tillaga líkjast því að hægt væri að flytja tillögu um að það rigndi minna á suðvesturhorninu yfir sumartímann, eða að hægt væri að flytja tillögu um að jólunum yrði frestað þegar það hentaði.

Mér finnst ekki gaman að lesa það í grg. með frv. hve lítið er gert úr þeim vísindalegu upplýsingum sem þó hafa verið sendar inn til Alþingis vegna frv. þegar það var flutt hér. Þegar frv. var flutt síðast var send inn afar efnismikil umsögn frá svefnrannsóknarstofu geðdeildar Landspítalans.

Herra forseti. Ef vísindamenn á sviði heilsuvísinda telja ástæðu til þess að reka svefnrannsóknarstofu á vegum geðdeildar Landspítalans þá er þar um ákveðin vísindi að ræða. Það vill þannig til, herra forseti, að ég hef kynnt mér þessa níu síðna umsögn sem 1998 var send inn vegna frv. sem þá lá fyrir um tímareikning. Hún er afar vönduð, herra forseti, og er studd vísindalegum rökum. Mér þykir því í hæsta máta leiðinlegt að lesa í niðurlagi grg. með þessu frv. að umsögn sérfræðinga geðdeildar Landspítala Íslands uppfylli ekki þær kröfur sem gera verði til vísindalegrar þekkingar.

[17:45]

Herra forseti. Ég fullyrði að þetta sé hrokafull afstaða flutningsmanna til vísindalegra upplýsinga sem koma fram í þessari umsögn. Og ég dreg í efa, herra forseti, að flutningsmenn tillögunnar hafi kynnt sér nægilega vel þá umsögn sem hér er um rætt.

Ég vil vísa þessari fullyrðingu sem ég hér vitna til til föðurhúsanna með því að nefna lokagrein greinargerðar þessa frv. sem hér liggur fyrir, en þar segja flutningsmenn, með leyfi forseta:

,,Upptaka sumartíma með þeim hætti sem lýst er í frumvarpinu er því mikið hagsmunamál almennings í landinu. Málið hefur víðtækan stuðning meðal félagasamtaka og sveitarfélaga`` --- og, herra forseti, rúsínan í pylsuendanum er eftirfarandi: ,,og víst að mannlífið á Íslandi yrði stórum betra ef það nær fram að ganga.``

Herra forseti. Ég spyr: Eru þetta nú vísindaleg rök? Hvar eru rökin með þessari fullyrðingu? Nánast í sömu setningu og gert er lítið úr afstöðu vísindamanna til þeirra hugmynda sem hér koma fram þá slá flutningsmenn fram fullyrðingu af þessu tagi. Mér finnst þetta ekki sæmandi, herra forseti.

Mér finnst þetta talandi dæmi um illa ígrundaða tillögu sem, eins og hefur komið fram í máli þeirra þingmanna sem hér hafa talað gegn henni, miðar við viðskiptalífið í Evrópu. Ég fullyrði, herra forseti, að flutningsmenn misskilja tilskipun Evrópusambandsins með því að gera henni þau skil sem gert er í greinargerðinni, þar sem sagt er að Evrópusambandið hafi gefið út tilskipun um samræmdan sumartíma í aðildarríkjunum. Það er rétt. Samræmdan sumartíma, þ.e. að öll aðildarríkin hefji sinn sumartíma á sama tíma eða sama degi og endi á sama degi, þ.e. þeir sem hafa sumartíma.

Hér er ekki verið að fjalla um þau ríki sem ekki hafa sumartíma þannig ég held því fram að hér sé um misskilning að ræða á Evróputilskipuninni. Ég vil nú meina að skrifræðinu í Brussel sé líka gert fullhátt undir höfði með því að taka þessa tilskipun jafnalvarlega og raun ber vitni og vil ég nú meina að ýmsar aðrar tilskipanir sem Evrópusambandið hefur gefið út væru þess virði að taka hér upp í lög frekar en þessi misskilningur sem hér kemur í ljós.

Mig langar til að fara örfáum orðum um hin vísindalegu rök, herra forseti, því það er algjör óþarfi að gera lítið úr því þegar talað er um lífsklukku eða innri klukku fólks.

Það þekkja allir sem starfað hafa í skólum landsins að það er erfiðara að kenna börnum að morgni til en um eftirmiðdag. Það er erfiðara að kenna börnum klukkan átta að morgni en klukkan fjögur að degi. Staðreyndin er sú að lífsklukka barna er mjög viðkvæm, það hafa rannsóknir sýnt og það hafa verið skrifaðar um það ótal skýrslur og ótal bækur.

Mig langar til að vitna í þessu sambandi, herra forseti, í bréf sem allshn. Alþingis barst snemma árs 1998 þegar þessi tillaga var til umfjöllunar. Þetta er úr bréfi sem er skrifað af Júlíusi K. Björnssyni, sálfræðingi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Hin líffræðilega staðreynd málsins er sú að reglubundnar breytingar ljóss og myrkurs stjórna svefni og vöku manna. Þetta gerist þannig að þegar ljós kemur í augun stöðvast framleiðsla hormónsins melatóníns í svokölluðum heilaköngli og á sama hátt hefst þessi framleiðsla þegar dimmir. Því stjórnast þær mikilvægu breytingar sem eiga sér stað í líkama manna á hverjum sólarhring af birtu og myrkri. Dægursveifla líkamans er því stjórnandi svefns og vöku og svefn sem kemur á röngum tíma sólarhringsins er alltaf lélegur, léttur og slæmur eins og allir þeir vita sem stundað hafa vaktavinnu. Í könnun á svefnvenjum Íslendinga sem gerð var á vegum rannsóknarstofu okkar fyrir áratug`` --- þarna er bréfritari að tala um svefnrannsóknir geðdeildar Landspítalans --- ,,kom í ljós að Íslendingar sofna og vakna klukkutíma seinna en aðrar Evrópuþjóðir, og einasta skýringin á því er sú að hér er klukkan nú þegar einum og hálfum tíma rangt stillt. Nú vilja flutningsmenn tillögunnar auka þetta misræmi enn frekar og þar með auka þann vanda sem margir Íslendingar eiga við að stríða við að sofna á kvöldin og vakna á morgnana.``

Herra forseti. Það hafa verið gerðar kannanir á Íslandi á svefnvenjum. Það eru vísindalegar kannanir og það liggja fyrir vísindalegar niðurstöður úr þessum könnunum. Þær niðurstöður mæla eindregið gegn því að tillaga eins og við erum að ræða hér fari í gegnum hið háa Alþingi. Það hefur því kannski verið guðslukka að hún hefur ekki verið afgreidd út úr nefnd, herra forseti, hingað til og ég satt að segja hef efasemdir um að hún verði afgreidd út úr nefnd núna eða a.m.k. miklar efasemdir um að Alþingi fari að samþykkja hana, því svo einföld þykir mér hún og illa ígrunduð. Breyting af þessu tagi mundi nánast jafngilda því að þjóðin þjáðist af því sem kallað er þotuþreyta árið út og árið inn.

Herra forseti. Ég legg til að klukkan verði látin í friði og henni haldið eins og hún hefur verið frá 1968. Það hefur verið okkur heilladrjúgt.

Herra forseti. Mín ósk er að svo verði áfram.