Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:50:53 (1010)

2000-10-31 17:50:53# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:50]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð með þessari tillögu kemur fram að á 120. löggjafarþingi var frv. sent fjölmörgum aðilum til umsagnar, m.a. einstökum sveitarfélögum og samböndum sveitarfélaga sem öll lýstu yfir eindregnum stuðningi við frv. og gerðu engar athugasemdir við efni þess. Samband íslenskra veitingahúsa og Flugleiðir lýsa einnig yfir stuðningi við frv. og vísa til þeirra röksemda sem fram koma í greinargerð. Þá koma líka fram röksemdir frá Knattspyrnusambandi Íslandi um að í fyrsta lagi sé keppnistímabil íslenskra knattspyrnumanna það stutt að það verði æ erfiðara að koma fyrir öllum þeim leikjum sem þarf í öllum aldursflokkum frá klukkan sautján til nítján.

Varðandi geðheilsu þá er nú kannski ekki rétt að segja að þessi greinargerð sé hrokafull. Ég veit ekki annað en við höfum verið upplýst um það á Alþingi að geðlyfjanotkun Íslendinga hafi aldrei verið meiri en nú um þessar mundir, því miður, og er ekki rétt að henda gaman að því.

Ef við lítum á skólagöngu þá eru börn yfirleitt snemma á fótum ef þau fara í rúmið á eðlilegum tíma og gamalt fólk er það líka. Það er yfirleitt vaknað löngu á undan öllum öðrum og vill hefja sitt starf á skikkanlegum tíma.