Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:53:31 (1012)

2000-10-31 17:53:31# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:53]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins nefna eitt í ræðu hv. 17. þm. Reykv., Kolbrúnar Halldórsdóttur, þ.e. fullyrðingu hennar eftir að hún var búin að ræða um hin vísindalegu rök frá 1998 upp á níu síður sem hún las og leiðir líkur að því að þetta hafi slæm áhrif á geðheilsu Íslendinga.

Hv. þm. fullyrti líka að það væri vísindalega sannað að miklu erfiðara væri að kenna börnum klukkan átta á morgnana en klukkan fjögur á daginn. Þetta kom fram í ræðu hv. þm. rétt áðan. Ég hafði nú ekki efni á því að vera kennari nema í tvö ár. En ég er á annarri skoðun en hv. þm. hvað þetta varðar. Ég ætla ekkert að líkja því saman hvað það var betra að kenna á morgnana en seint um dag. Ég hygg að það væri t.d. töluvert betra á hinu háa Alþingi ef við mundum byrja að vinna í þingsölum Alþingis fyrr á daginn en ekki yfirleitt langt fram á kvöld. Mér finnst stundum geðheilbrigði ýmissa þingmanna vera miklu verra seinni hluta dags en á morgnana.

Þessu vildi ég nú koma að og spyrja hv. þm. út í hvaða vísindalegu rök og hvaða vísindalegu skýrslur hún hefur upp á það að þetta sé betra gagnvart blessuðum börnunum og skólalífinu.

Jafnframt vil ég ítreka þá spurningu sem hér hefur verið lögð fram og mér finnst að ekki hafi verið svarað af hv. þm. Hún leiðir líkur að því að ef þetta frv. yrði samþykkt þá mundi geðheilsa Íslendinga versna mikið í kjölfarið. Batnaði hún mikið árið 1968 þegar við hættum að taka upp sumartímann? (Gripið fram í: Já, já.)