Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:36:42 (1025)

2000-10-31 18:36:42# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:36]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frv. og ég kem hér til þess að skora á þingheim að samþykkja frv. Þetta frv. er byggt á afar góðum og traustum rökum sem ég vonast til að þingheimur kynni sér vel. Ég verð að segja að í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í dag hafa mótrökin gegn því sem kemur fram í grg. verið afar máttleysisleg. Ég hef ekki fundið neitt í þeim rökum sem getur snúið afstöðu minni til þessa máls.

Ég vil í fyrsta lagi minnast á viðskiptarökin, sem menn hafa jafnvel reynt að gera lítið úr hér í dag. Það er athyglisvert að menn telja ekki mikilsvert að huga að því hvað hentar viðskiptalífinu, sérstaklega hvað varðar ferðaþjónustuna. Flug og ferðalög Íslendinga til annarra landa er stór þáttur í íslensku þjóðlífi og lífi Íslendinga. Þeir ferðast til útlanda og skiptir auðvitað gífurlega miklu máli fyrir þá hvernig flugið er og hversu snemma menn þurfa að fara af stað til að ná flugi. Auðvitað væri betra að hafa sama hátt á því allan ársins hring.

Varðandi þá erlendu ferðamenn sem hér koma þá skiptir þetta mjög miklu máli. Einnig veitingahús og annað, tilheyrandi ferðaþjónustunni. Samskipti íslenskra fyrirtækja við Evrópu og Ameríku skipta líka miklu máli, að menn séu alltaf með sama tímamismun að menn þurfi ekki að vera að hugsa um hvort núna sé eins eða tveggja tíma munur, þegar þeir hafa samskipti við Danmörku eða fimm eða sex tíma, þegar menn hafa samskipti við Ameríku. Það er auðvitað best fyrir alla að hafa þennan tímamismun alltaf þann sama.

Hér hefur einnig verið nefnt að menn gætu breytt til í fyrirtækjum, vilji menn breyta til um tíma og eins og fyrirtæki hafa víða gert sérstaklega úti á landsbyggðinni. En það á einnig við um fyrirtæki í Reykjavík. Það er einu sinni þannig að það er afar óhentugt að sum fyrirtæki breyti þessu en önnur ekki. Atvinnulífið er allt samtengt og við getum ekki neitað því. Sjálf hef ég starfað í fiskvinnslufyrirtæki sem breytti vinnutímanum að ósk starfsfólks þannig að vinna hófst kl. 7 á morgnana og lauk kl. 3 á daginn til þess að starfsfólk gæti notið sumars og sólar yfir sumartímann. Þetta hentaði auðvitað ekki öllum, m.a. vegna þess að leikskólarnir breyttu ekki sínum tíma frekar en mörg önnur fyrirtæki í bænum. Þetta olli því barnafjölskyldum erfiðleikum. Þetta varð samt sem áður niðurstaðan og þess vegna hafði þetta, sérstaklega fyrir þær fjölskyldur sem voru með lítil börn, verulega erfiðleika í för með sér. En það hentaði auðvitað mjög mörgum öðrum að hafa á þennan háttinn.

Mér fannst það afar sérstakt þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að gera lítið úr hagsmunum fiskvinnslufólks á Siglufirði. En þetta var ósk starfsfólks í minni heimabyggð og ég reikna með því, af því að hann vitnaði til Siglufjarðar, að þetta hafi einnig verið ósk fiskvinnslufólks þar. Þess vegna finnst mér það sérstakt að hv. þm. skuli gera lítið úr hagsmunum og óskum fólks sem vinnur við þessa atvinnugrein. Eins og ég sagði áðan á þetta við um fleiri atvinnugreinar, þ.e. að opnunartíma sé breytt að ósk starfsfólks en það hentar auðvitað ekki öllum fyrirtækjum.

Ég verð að segja, fyrir mína parta, að ég er ekki alltaf sammála því sem kemur frá Brussel í skýrslum og öðrum pappírum en í þessu tilfelli fellur sú skýrsla frá Evrópusambandinu, varðandi það að hafa samræmdan sumartíma, sem vitnað hefur verið til algerlega að sjónarmiðum mínum. Mér finnst skemmtilegt að þar er m.a. komið inn á umhverfissjónarmið, orkusparnaðarsjónarmið og umferðaröryggissjónarmið. Maður hefði haldið að miðað við málflutning sumra stjórnmálaflokka hér á Alþingi undanfarin ár væri þetta eitthvað sem hentaði m.a. sjónarmiðum vinstri grænna. Þeir hafa hins vegar ekki getað fundið sér samsvörun í þessu en ég bið hv. þm. um að skoða frv. með þessi sjónarmið í huga. Þar eru umhverfissjónarmið sem skipta mjög miklu máli.

Eins og hér hefur komið fram var svipað mál sent til umsagnar fyrir fáum árum. Umsagnir bárust m.a. frá talsmönnum íþróttalífsins í landinu. Hér á Alþingi eru ekki fáir vinir knattspyrnunnar og það kemur einmitt mjög sterkt fram hjá Knattspyrnusambandi Íslands að þetta er stórt hagsmunamál fyrir knattspyrnumenn, að fá þessu breytt. Í umsögnum þeirra kemur m.a. fram hversu erfitt það er að skipuleggja keppni í öllum aldursflokkum vegna mismunandi birtuskilyrða og sjónvarpsútsendinga frá knattspyrnuleikjum. Það getur orðið vandamál þegar tíminn hentar ekki til sjónvarpsútsendinga. Þarna eru gífurlega miklir hagsmunir fyrir þá sem stunda íþróttir, t.d. golf. Það komu einmitt fram mjög sterk sjónarmið frá golfurum varðandi þessi mál. Þessar útvistaríþróttir mundu því njóta mjög góðs af breytingunni.

Síðast vildi ég nefna þau rök sem varða lífsstíl. Það er auðvitað mikill þáttur í lífsstíl fólks að geta notið sólar og birtu sem lengst og geta notið útivistar, geta notið þess í sumri og sól að grilla okkar ágæta lambakjöt --- þar með erum við komin inn á hagsmuni landbúnaðarins, að selja meira af okkar ágætu afurðum.

[18:45]

Þetta eru allt góð og gild sjónarmið hvað varðar lífsstíl okkar Íslendinga og að hann geti enn þá batnað. Ég vil halda því fram út af þeirri heilsufarsumræðu sem hér hefur farið fram í dag að einmitt það að geta notið aukinnar útivistar mun bæta heilsu okkar Íslendinga.

Af því að sjónarmið þeirra sem búa í þröngum fjörðum hafa einnig verið nefnd er þetta einnig mikið byggðasjónarmið. Sjálf hef ég búið í þröngum firði með háum fjöllum og ég fullyrði að þetta mundi hafa mikil áhrif fyrir íbúa margra Austfjarða. Og þeirra fjarða og byggðarlaga sem þannig eru staðsett að sólin hverfur mjög snemma á bak við fjöllin þannig að menn geta ekki notið þess í þeim byggðum eins og annars staðar að vera lengi fram eftir úti í görðum sínum og notið sólarinnar. Mönnum finnst þetta kannski lítil rök en ég fullyrði jafnframt að flestir íbúar þessara staða eru sömu skoðunar og ég. Það skiptir gífurlega miklu máli að geta notið þess að vera lengur úti og sinnt görðum sínum, grillað og átt notalegt garðlíf eins og aðrir þekkja annars staðar þar sem sólar nýtur lengur og mönnum finnst alveg sjálfsagt. Einn klukkutími í þessu skiptir mjög miklu máli og ekki síst með tilliti til þess að bæta lífsstíl okkar þá er það sjónarmið mitt að við eigum að breyta til og fylgja öðrum stórþjóðum. Vel má vera að það þyki einhver hroki að við ætlum að fylgja þeim en þetta er svona, þetta skiptir okkur gífurlega miklu máli til að bæta líf okkar og ekki síst fjölskyldulíf.

Þeir þingmenn sem treysta sér ekki til að vakna þetta fyrr á morgnana geta auðvitað haldið lífsstíl sínum í því að vakna aðeins seinna og haft það þannig en ég skora samt sem áður á þá að samþykkja þetta mikla hagsmunamál alls almennings í landinu, íþróttahreyfingarinnar og viðskiptanna.

Allar umsagnir sem við fengum um þetta mál í því formi sem það var lagt fram síðast þegar það kom fram á þinginu voru mjög jákvæðar utan kannski einnar eða tveggja. Ég endurtek að hér er um mikla alvöru að ræða og mikill þungi í þessum meiningum okkar sem leggjum þetta mál fram. Ég skora á þá þingmenn sem hafa efasemdir um þetta að kynna sér málið betur og fylgja því þegar við greiðum um það atkvæði.