Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:52:21 (1027)

2000-10-31 18:52:21# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:52]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki orðið vör við að geðheilsa Austfirðinga væri nokkuð verri en Íra. Hins vegar tekur þingmaðurinn þetta út úr samhengi. Þetta er einmitt dregið fram vegna þeirrar umræðu að breyting á klukkunni hafi slæm áhrif á geðheilsu fólks og klukkunni á Írlandi er breytt þannig að þar er sumartími. Geðheilsa Íra er bara ekkert mjög slæm og þar er mjög mikill hagvöxtur og gott efnahagslíf svo að eftir er tekið um allan heim. Í því samhengi er þetta dregið fram. Ég skora því á hv. þm. Kristján Pálsson að lesa alla greinargerðina. Ég held að það mundi bæta málflutning hans mjög.

Varðandi það að viðskiptalífið og útivistin mundi blómgast fullyrði ég það og hef til stuðnings þær umsagnir sem komu um málið þegar það var lagt fram síðast, ekki síst frá íþróttafélögum, og frá viðskiptalífinu, ferðaþjónustunni, Verslunarráði, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Eimskipafélaginu og fleiri aðilum sem sendu inn umsagnir um þetta og töldu að málið væri allt til mikilla bóta og þetta mundi einmitt hjálpa til við viðskiptin að hafa alltaf sama mismun á tímanum því að eins og hér hefur komið fram er Ísland ekki á sömu breiddargráðu og Evrópa og þess vegna breytist tíminn og ástæða til að hafa alltaf sama tímamismun.