Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:02:19 (1033)

2000-10-31 19:02:19# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held því fram að röksemdir sem menn sækja sér í skýrslur Evrópusambandsins um úttekt á aðstæðum á meginlandi Evrópu, þess vegna suður á Ítalíuskaga, dugi ekki. Ég held að ætli menn að heimfæra þær upp á íslenskar aðstæður og ganga út frá því sem sönnuðu að þessi breyting væri jákvæð með tilliti til umferðaröryggis og orkusparnaðar þá geti þeir ekki fullyrt slíkt. Ég óttast jafnvel að hið gagnstæða kæmi í ljós ef gerð yrði á því sjálfstæð íslensk könnun. Mér sýnast ýmsar vísbendingar um að frekar væri ástæða til að hafa áhyggjur af hinu gagnstæða, öryggi t.d. gangandi vegfarenda vor og haust sem yrðu meira á ferðinni í myrkri á morgnana ef þessi breyting yrði gerð. Það er í öllu falli algerlega fráleitt að gefa sér að hægt sé að yfirfæra niðurstöður úr evrópskri könnun, umfjöllun um hverja ég held að sé mjög fegruð í greinargerðinni, yfir á íslenskar aðstæður. Ég var að reyna að benda á það.

Mér finnst heldur óþarft af hv. þm. að nota alltaf það orðalag að maður sé að gera lítið úr öllu sé maður ekki sammála hv. þm. Ég tel mig ekki hafa lagt það í vana minn að gera lítið úr fiskvinnslufólki á Siglufirði eða hagsmunum þess. Ég bið þá hv. þm. að rökstyðja slíkt betur ef hún telur sig geta það.