Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:03:44 (1034)

2000-10-31 19:03:44# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:03]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fullyrði, og þar stendur þá orð gegn orði á milli okkar hv. þm., að hér sé um verulega hagsmuni að ræða í orkusparnaði og umferðaröryggi. Það væri hins vegar full ástæða til þess, ég og hv. þm. gætum kannski orðið sammála um það, að gera slíka úttekt. Ég mundi fagna því ef það væri gert.

Það hefur komið fyrir hv. þm. eins og kannski kom fyrir mig áðan að leggja honum þau orð í munn um það að hann væri að gera lítið úr hlutunum. Hins vegar vill svo til að hv. þm. dró það upp heldur til gamans að þetta mál hefði kannski upphaflega orðið til í fiskvinnslufyrirtæki á Siglufirði. Ég gat ekki túlkað það öðruvísi en svo að hann væri heldur að gera lítið úr því með því segja að það hefði orðið til í fiskvinnslufyrirtæki á Siglufirði. Hv. þm. verður að virða mér það til vorkunnar.