Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:16:06 (1039)

2000-10-31 19:16:06# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:16]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. nefnir atvinnulífið, þá er atvinnulífið auðvitað í samskiptum við ýmsar aðrar þjóðir en Evrópusambandsþjóðirnar. Atvinnulífið er í miklum samskiptum við Bandaríkin, austur í Asíu og víðar og víðar. (Gripið fram í: Það skiptir máli að ...) Þurfum við þá ekki að hlaupa eftir tímanum þar líka?

Af því að hv. þm. nefndi í fyrra andsvari sínu þetta með Austfirðingana þá finnst mér satt að segja ekki boðlegt í greinargerð með frv. að gefa í skyn að það hafi tekist mun betur að skapa ný störf og laða fólk að á Írlandi en á Austurlandi vegna þess að þeir séu með klukkuna öðruvísi stillta. Þetta er svo gjörsamlega út í hött að ég trúi því ekki að hv. þm. ætli að taka undir þessa dellu.

Enn á ný með íþróttahreyfinguna. Hún er auðvitað í samskiptum út og suður, ekki bara við Evrópu. Ég hef ekki orðið var við annað en að þau samskipti hafi gengið ágætlega þrátt fyrir að við séum með klukkuna öðruvísi stillta en þjóðirnar í kringum okkur.