Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:17:24 (1040)

2000-10-31 19:17:24# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:17]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerir lítið úr greinargerð með frv. Ég vil nefna tvennt í andsvari mínu.

Það er í fyrsta lagi hvort honum finnist ekki skipta neinu máli fyrir flugsamgöngur milli Íslands og Evrópu að hér á landi verði tekinn upp sumartími til samræmis við önnur Evrópulönd. Þá þarf ekki að breyta flugáætlunum þegar tímabreytingar verða, en því fylgir jafnan töluverð fyrirhöfn og kostnaður. Enn fremur leiðir sumartíminn til þess að flug til Evrópu frá Keflavíkurflugvelli klukkan sjö á morgnana yrði einum tíma síðar eins og á vetrum. Þetta kemur sér vel fyrir farþega í morgunflugi til Evrópu. En nú er það mjög algengt umkvörtunarefni hversu snemma brottfarir eru, enda skapar það oft óþægindi fyrir farþegana. Það er ekki óeðlilegt að ætla að farþegar í Reykjavík þurfi að fara á fætur tveimur og hálfum til þremur tímum fyrir brottför frá Keflavík.