Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:35:21 (1047)

2000-11-01 13:35:21# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), Flm. EMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Í dag er 1. nóvember. Það eru aðeins þrír kennsludagar þar til boðað verkfall framhaldsskólakennara skellur á ef ekki takast samningar fyrir þann tíma. Það er því full ástæða til að ræða utan dagskrár hér á Alþingi stöðuna í þessari erfiðu kjaradeilu. Nauðsynlegt er að hæstv. ráðherrar fjármála og menntamála geri þingheimi grein fyrir mati sínu á stöðu deilunnar og hvort vænta megi einhvers útspils af þeirra hálfu á næstunni. Því miður virðist ekkert benda til þess að lausn sé í sjónmáli nema til komi eitthverjar aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem komið geti samningaviðræðum í sáttafarveg. Ekkert hefur gerst á samningafundum síðustu daga sem færir deiluna nær sáttum en næsti fundur verður kl. 3 í dag og vonandi kemur þar fram stefnubreyting af hálfu ríkisvaldsins.

Komi til boðaðs verkfalls blasa við skelfilegar afleiðingar. Ungmenni á viðkvæmum aldri geta flosnað úr námi. Framhaldsskólastigið gæti þurft mörg ár að ná jafnvægi á ný. Hætta er á að t.d. yngri framhaldsskólakennarar hætti störfum en því má framhaldsskólinn síst við. Eitt af vandamálum síðustu ára er lítil nýliðun í stéttinni. Lokun framhaldsskólans getur haft uggvænlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið í heild, m.a. vegna fylgni sem sýnt hefur verið fram á milli fjölda útskrifaðra framhaldsskólanema og hagvaxtar.

Hvað hafa stjórnvöld gert til að koma til móts við kröfur framhaldsskólakennara? Harla lítið. Í raun má segja að hæstv. ráðherrar hafi verið í felum gagnvart deilunni og því er kominn tími til það þeir komi fram í dagsljósið og beri sína pólitísku ábyrgð. Framhaldsskólakennarar hafa upplifað kjaradeiluna á þann hátt að þeir séu hunsaðir af yfirvöldum. Mál er að linni.

Einn vanda þessarar kjaradeilu má rekja aftur til ársins 1997 en þá fóru framhaldsskólakennarar aðra leið við gerð kjarasamninga en aðrir háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins. Þetta hefur m.a. leitt til verulegs munar á þróun launa framhaldsskólakennara í samanburði við þá hópa.

Margar tilraunir hafa verið gerðar af hálfu viðsemjenda ríkisins til að leysa þennan vanda. Eftir árangurslausar viðræður við samstarfsnefnd aðila var t.d. boðað til fundar með hæstv. ráðherrum fjármála og menntamála þann 6. september 1999. Þar var óskað eftir því að hæstv. ráðherrar beittu sér fyrir því að skoðað yrði hvernig lagfæra mætti mismunandi launaþróun framhaldsskólakennara og sambærilegra hópa innan BHM. Þessari ósk var hafnað 24. september 1999. Reynt var áfram með bréfaskriftum þann 6. október 1999 en aftur var því hafnað, í svari 20. október 1999, að hreyfa við launalið samningsins. Enn var gerð tilraun á fyrri hluta þessa árs en undirbúningsviðræður strönduðu í mars árið 2000 vegna þess að fulltrúar fjmrn. höfnuðu sameiginlegri skoðun á launaþróun framhaldsskólakennara. Alvara framhaldsskólakennara í málinu sést m.a. á þátttöku og úrslitum í kosningu um verkfallsboðunina en hún var samþykkt með miklum meiri hluta. Um 82% samþykktu boðunina og þátttakan var um 91%. Slík þátttaka er mun meiri en áður hefur sést hjá þessum hópi.

Af hverju er enn verið að ræða um vanda sem skapaðist á árinu 1997 þegar fyrir liggja óyggjandi tölur frá kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna sem sýna m.a. að munur dagvinnulauna er 32,4% milli framhaldsskólakennara og meðaltals annarra starfsmanna í BHM hjá ríkinu en munur heildarlauna er um 10,3% milli sömu hópa? Er það virkilega stefna stjórnvalda að framhaldsskólakennarar eigi að hafa mun lægri laun en aðrir háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins? Í stað þessarar umræðu ætti umræðan að snúast um hvernig skapa megi betri framhaldsskóla, hvernig gera megi hann hæfari til þess að takast á við framtíðina. Hvar eru hin fallegu markmið stjórnvalda? Hvar er menntastefnan? Allir vita að engin menntastefna næst fram án góðra og ánægðra kennara. Hvað er að gerast? Framhaldsskólinn er að lokast í miðju góðæri stjórnvalda. Er ekki tími góðærisins hinn rétti tími til þess að efla menntun og horfa til framtíðar? Hvaða samhengi er á milli hinna fögru orða um góðærið og mikilvægi menntunar og aðgerðar- og stefnuleysis stjórnvalda í þessari erfiðu kjaradeilu?

Ráðherrar hafa vísað deilunni frá sér eins og áður er sagt og ekki tekið á málinu af þeirri pólitísku ábyrgð sem nauðsynlegt væri. Þess vegna, herra forseti, ættu hæstv. ráðherrar að nota það tækifæri sem nú skapast til að gefa þær pólitísku yfirlýsingar sem þörf er á svo að næsti samningafundur deiluaðila skapi grunn til sátta. Það skortir pólitíska stefnu um lausn málsins. Ef tryggja á framgang menntastefnu ríkisstjórnarinnar þarf að gera heildarsamning við kennara um breyttan og betri skóla. Vandinn í framhaldsskólunum hefur varað of lengi. Ljóst er að Sjálfstfl. hefur á 10 ára valdaferli í fjmrn. og menntmrn. mistekist að skapa þær aðstæður í framhaldsskólum landsins að ná megi í fram þeirri mikilvægu endurskipulagningu sem þörf er á vegna breyttra þjóðfélagshátta. Fjárframlag til menntamála sem hlutfall af landsframleiðslu er mun minna en hjá nálægum þjóðum. Þetta skapar vanda (Forseti hringir.) í að standast alþjóðlegan samanburð.

Herra forseti. Hæstv. ráðherrar mennta- og fjármála verða að gefa öllum þeim fjölda sem áhyggjur hefur af stöðunni í kjaradeilu framhaldsskólakennara (Forseti hringir.) og ríkisins ákveðin svör varðandi hugmyndir þeirra um hvernig koma megi í veg fyrir að boðað (Forseti hringir.) verkfall framhaldsskólakennara komi til framkvæmda.

(Forseti (HBl): Hv. ræðumaður er kominn 27 sekúndur fram yfir.)