Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:48:27 (1050)

2000-11-01 13:48:27# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í upphafi 20. aldar töldust Íslendingar í hópi fátækustu þjóða Evrópu. Í aldarlok teljumst við meðal ríkustu þjóða innan ríkja OECD. Þessi stórkostlegi árangur náðist með samstilltu átaki þjóðarinnar þar sem hún var staðráðin í að hækka menntastig Íslendinga. Í því skyni komum við m.a. á skipulögðu menntakerfi, glæsileg skólahús risu og sú var tíð að kennarastarfið naut virðingar í þjóðfélaginu. Birtist sú virðing jafnt í umfjöllun um kennara sem og í kjörum þeirra enda er það einföld staðreynd að gott skólakerfi þrífst einfaldlega ekki án hæfra og góðra kennara.

Ég varpa hins vegar fram þeirri spurningu hvort virðingin fyrir mikilvægi starfs kennarans sé enn til staðar í þjóðfélaginu almennt. Illu heilli neyðist ég til að svara þeirri spurningu neitandi. Allt of oft má sjá og heyra í fjölmiðlum neikvæðan tón í garð kennara. Spyrja má hvort foreldrar tali alltaf af virðingu um kennara í eyru barna sinna. Spyrja má hvort hótanir annarra stéttarfélaga um meintar kjarabætur kennara feli í sér mikla virðingu fyrir gildi menntunar.

Herra forseti. Ég kalla það þjóðarskömm hvernig viðmót til kennara og kjör hafa verið látin þróast síðustu áratugina, kjör og viðmót sem virðast langt komin með að brjóta niður sjálfsmynd stéttarinnar. Við erum í raun ekki að ræða um kennara sem einstaklinga heldur spurninguna um það hvort unnt verði að halda áfram að hækka menntastig þjóðarinnar í alþjóðlegri samkeppni. Það er hvorki einkamál kennara né alþingismanna, þar er um að ræða mál sem þjóðin öll hlýtur að láta sig varða enda hefur sama þjóð stöðugt verið að trúa kennarastéttinni fyrir stærri og erfiðari verkefnum þó að þess gæti ekki að öðru leyti.