Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:57:34 (1054)

2000-11-01 13:57:34# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að menn láti ekki fipast í þessu máli enda þótt nokkurrar taugaveiklunar og talsverðrar óbilgirni gæti í málflutningi hæstv. ráðherra, menntmrh. og fjmrh., þá stendur þjóðfélagið frammi fyrir mjög alvarlegu vandamáli, að framhaldsskólarnir í landinu lokist 7. nóvember. Við eigum að leggjast á eitt að koma í veg fyrir þetta.

Ef það er nokkuð sem ég hefði talið að sátt væri um í þjóðfélaginu þá er það mikilvægi þess að búa vel að skólastarfi og því starfsfólki sem þar starfar. Þetta ræð ég af ummælum manna á meðal í samfélaginu almennt og af yfirlýsingum ráðamanna. Þannig hefur hæstv. menntmrh. marglýst yfir vilja til að bæta kjör kennara þótt ég skrifi ekki upp á pólitískar formúlur hans eða hæstv. fjmrh. sem byggja á því að auka vægi einstaklingsbundinna launa, væntanlega með tilheyrandi bónusálagi, kerfum sem ganga engan veginn upp innan skólans. En það sem er mikilvægt er að þeir lýsa því yfir að þeir vilji bæta kjörin. Nú reynir á að eitthvert innihald sé í þessum yfirlýsingum. Þá verður það að koma fram að þeir séu reiðubúnir að lýsa því yfir að viðbótarfjármagn komi til skólanna til að standa straum af þessum kostnaði. Ég á eftir að trúa því, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin, með þessa tvo hæstv. ráðherra í fararbroddi, ætli að standa að því að loka framhaldsskólunum í landinu 7. nóvember með óbilgirni sinni. Ætla þeir að refsa kennarastéttinni fyrir að taka ekki upp það launakerfi sem er sannarlega mjög umdeilt á meðal starfsmanna og gengur engan veginn upp innan skólanna? Ætlar þeir að refsa þessari stétt? Ætla þeir með óbilgirni sinni að loka framhaldsskólunum í landinu 7. nóvember? Við það verður ekki unað.