Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:59:58 (1055)

2000-11-01 13:59:58# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Í skýrslu hæstv. menntmrh. um skólahald í framhaldsskólum 1996--1999 er greint frá ýmsum staðreyndum og þar er að finna ýmis merki um hættu sem steðjar að menntakerfinu. Brottfall nemenda nemur allt að helmingi þeirra sem innritast við 16 ára aldur í framhaldsskóla, réttindakennurum fer fækkandi svo og nemendum á uppeldisbrautum skólanna. Jafnframt liggur fyrir að meðalaldur kennara er hár, nýliðun í stéttinni lítil, aðsókn í kennaranám hefur dregist saman og réttindakennarar skila sér að námi loknu í sífellt minna mæli inn í skólana. Ástandið er slæmt bæði í framhaldsskólunum og í grunnskólunum.

[14:00]

Herra forseti. Nefnd sem í febrúar 1999 skilaði skýrslu um mat á kennaraþörf í grunnskólum fram til ársins 2010 sýndi fram á að á næstu árum muni vanta hundruð kennara til starfa og hún bendir á að það hljóti að vera forgangsverkefni að fjölga kennurum til að mæta fyrirsjáanlegri þörf. Hún lagði áherslu á að fjölga nýnemum, auka fjarnám, ná inn fólki með kennsluréttindi og halda sem flestum nýliðum. Leiðirnar sem nefndin benti eðlilega á voru að gera laun og kjör kennara samkeppnisfær við önnur störf með bættri vinnuaðstöðu í skólum og með því að gera kennarastarfið eftirsóknarvert að öðru leyti. Raunveruleikinn í dag er hins vegar sá að sífellt fleiri hæfir kennarar hverfa kjaranna vegna til annarra og betur launaðra starfa.

Við tölum á hátíðastundum um gildi mannauðsins fyrir samkeppnihæfni þjóðarinnar og yfirskrift nýrra aðalnámskráa sem komu út í fyrra, Enn betri skóli. Þeirra réttur -- okkar skylda, felur vissulega í sér fyrirheit sem ekki verður staðið við nema tryggt sé að hægt sé að manna skólana vel hæfum og vel menntuðum kennurum. Óánægja kennara með kjör sín, stöðug kjarabarátta, brotthvarf kennara til annarra og betur launaðra starfa og sífelld yfirvofandi verkföll stuðla ekki að betri skóla heldur grefur það undan þeim markmiðum sem við höfum gert okkur að bæta. Herra forseti. Ég held að menntakerfið þoli ekki enn eitt verkfallið.