Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:04:23 (1057)

2000-11-01 14:04:23# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Hér erum við að ræða mjög alvarleg mál og ég tek heils hugar undir málflutning fjmrh. og menntmrh. í umræðunum í dag. Það er hins vegar alveg ljóst að framhaldsskólarnir í landinu búa við úrelt og staðnað launakerfi og þar eru dagvinnulaunin auðvitað allt of lítill þáttur í launakjörum kennara þar sem um er að ræða ekki nema rúmlega 60%. Það sem við þurfum er auðvitað sveigjanlegt og opið kerfi sem þjónar þörfum framhaldsskólanna eins og þeir eru í dag og eins og við viljum hafa þá í framtíðinni. Það er þess vegna þung skylda og ábyrgð sem hvílir á báðum samningsaðilum, bæði fulltrúum ríkisins og fulltrúum kennara og það er mikið í húfi, þ.e. hagsmunir 17.000 nemenda og fjölskyldna þeirra og þjóðfélagsins alls því að við viljum ekki að það verði röskun á skólastarfi einu sinni enn.

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvaða tilgangi svona umræða þjónar hér á þinginu. Kjaramál og kjaradeilur hljóta alltaf að vera mjög erfið og viðkvæm mál. Þau verða ekki til lykta leidd hér á þinginu. Og vinnubrögð stjórnarandstöðunnar í þessu máli sem öðrum nú í haust eru athyglisverð. Málin eru rædd í upphlaups- og upphrópunarstíl. Í gær voru greidd atkvæði um skýrslubeiðni þar sem voru lagðar fram svo vitlausar spurningar að það er ekki hægt að svara þeim og í dag er umræða sem þjónar engum öðrum tilgangi en að þyrla upp pólitísku moldviðri (Gripið fram í.) um viðkvæm kjaramál sem eru í fullri vinnslu hjá samningsaðilum. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Hér er um hreint lýðskrum að ræða af hálfu stjórnarandstöðu í háalvarlegu máli. Ég endurtek: Hér er um hreint lýðskrum að ræða.

(Forseti (HBl): Þó það sé gaman að heyra hv. þingmenn glaða og skemmtilega þá var nú einhver undirtónn í þessu sem ekki var huggulegur núna.)