Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:07:00 (1058)

2000-11-01 14:07:00# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), Flm. EMS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt að þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað þó svo að ýmsir hv. þingmenn telji hana vera óþarfa. Það tel ég alls ekki hafa verið. Hér hafa nákvæmlega komið fram þau sjónarmið sem ég óttaðist þegar ég hóf umræðuna, þ.e. við heyrðum hjá hæstv. ráðherrum að það er enginn sáttatónn í þeim.

Það er hins vegar athyglisvert að bera saman þær ræður sem hv. þm. Framsfl. fluttu hér og ræður hæstv. ráðherra. Það er greinilegt að það er ekki samhljómur í ríkisstjórnarflokkunum í þessu máli og verðum við að vona að áhrif Framsfl. verði meiri í deilunni ef við eigum að fá lausn í hana sem allra fyrst.

Það var einnig athyglisvert, herra forseti, að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir taldi fulla ástæðu til þess að taka það sérstaklega fram að hún tæki heils hugar undir öll orð hæstvirtra ráðherra. Það var ekki að ástæðulausu því að það hafði enginn annar hv. þm. gert í þessari umræðu.

Herra forseti. Ýmislegt kom fram í máli hæstv. ráðherra sem ástæða væri til að gera athugasemdir við en tími minn leyfir að sjálfsögðu ekki að fara yfir hvert einasta atriði. Það verður þó að minnast á það að misskilningur eða vankunnátta hæstv. fjmrh. á kjarasamningum kennara er hreint ótrúlegur. Það er skelfilegt til þess að vita að sá fundur sem haldinn var fyrir rúmu ári síðan hefur ekki náð að upplýsa hæstv. ráðherra um grundvallaratriði kjarasamningsins og það er einnig skelfilegt til þess að vita að hann skuli hafa gleymt því að hann sat fund fyrir rúmu ári síðan og kjaradeilan hefur því staðið nú í rúmt ár og þess vegna er hæpið að tala um að verkfallið sé boðað með sérstökum hraða.

Herra forseti. Það var einnig athyglisvert þegar hæstv. menntmrh. tilkynnti að ráðuneyti hans hefði nú sem aldrei fyrr komið að samningaborðinu. Og hvað var það þá sem hæstv. ráðuneyti hafði gert? Jú, það var að svara fyrirspurnum. Herra forseti. Er nema von að spurt sé: Er ekki kominn tími til að hæstv. ráðherrar sýni eitthvert frumkvæði í deilunni?