Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:09:08 (1059)

2000-11-01 14:09:08# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það hefur komið hér fram í máli manna að kennarar hafi gert athugasemdir við kjör sín þegar fyrir rúmu ári síðan. Það er rétt að það var haldinn fundur um það mál eða réttara sagt um bókanir sem fylgdu kjarasamningnum í september 1999 og kennarar höfðu þá og í kjölfarið uppi kröfur um að samningurinn yrði tekinn upp og þeim yrði borgað umfram samninginn. Það er bara því miður ekki gert meðan samningar eru í gildi.

Hvað skyldi t.d. forustan í BSRB hafa sagt ef tekinn hefði verið einn kjarasamningur við opinbera starfsmenn og allt í einu byrjað að greiða ofan á hann samkvæmt kröfum viðkomandi hóps? Ég er hræddur um að forustan í því bandalagi og öðrum hefði nú kannski ekki tekið því fagnandi. Það verður að horfa hér á ákveðið samhengi hlutanna. (Gripið fram í.) Þess vegna var sú leið ekki fær.

Hins vegar var í janúar sl. gert samkomulag um að greiða kennurunum ákveðna upphæð vegna vinnu sem þeir voru þá að leggja í á vegum skólanna. Það var umfram samninginn en það var ákveðið að gera það vegna þess að það var vegna tiltekins vinnuframlags sem ákveðið var að kaupa af þeim.

Það er rétt að svona deilur leysast ekki í þingsölunum. En það er ágætt að viðra málin hér og ég þakka framsögumanni fyrir málefnalega framsöguræðu. Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi. Það þarf að breyta kjarasamningsumhverfi framhaldsskólakennaranna. Það þarf að endurskipuleggja það og ég tel að með slíkum breytingum, eins og ég sagði áðan, sé unnt að færa kennurunum verulegan ávinning á nokkrum árum. Og ég sagði líka og skal endurtaka það að ég tel rétt og nauðsynlegt fyrir skólastarfið í landinu að framhaldsskólakennararnir fái slíkan ávinning.

Þá er spurningin: Eru samtök þeirra tilbúin að leggja í slíkar kerfisbreytingar með ríkisvaldinu? Ég vona svo sannarlega að svo sé.