Ummæli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:17:37 (1067)

2000-11-01 14:17:37# 126. lþ. 18.91 fundur 80#B ummæli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er algerlega ósammála þínum orðum um að það sem hér fer fram, þessi umræða ...

(Forseti (HBl): Það á að segja herra forseti.)

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar hafi ég ekki ávarpað herra forseta rétt. Ég vil hins vegar halda máli mínu áfram. Það sem ég vil segja er að þessi umræða snýst um störf þingsins, um hvaða mál eigi að vera hér til umræðu. Á þeim forsendum var hún sett fram.

Hér var sett út á mál frá því í gær og því haldið fram að þar hefðu verið bornar fram svo vitlausar spurningar að ekki væri hægt að svara þeim. Hvort svo er kemur auðvitað í ljós. Ég efast ekki um að fjallað verður um það mál með eðlilegum hætti af þeim sem svörin eiga að veita. Síðan er því haldið fram að sú umræða sem fram fór á síðasta fundi hafi ekki átt erindi hingað.

Ég tel að full ástæða sé til þess að þingið fjalli um þessi mál. Sú umræða snýst, hæstv. forseti, um störf þingsins. Mér finnst að við eigum ekki að þurfa að deila um það við hæstv. forseta hvort umræður sem þessar séu eðlilegar. Þær snúast um þau störf sem sinnt er hér á hv. Alþingi.