Rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:27:21 (1075)

2000-11-01 14:27:21# 126. lþ. 18.1 fundur 104. mál: #A rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi vísar til 4. tölul. II. kafla framkvæmdaáætlunar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samin var á Alþingi í maí 1998, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Skipuð verður nefnd sem mun leggja fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi.``

Könnunin sem spurt er um var sett af stað á haustdögum og nefndastarfið er því nýlega hafið. Skipuð hefur verið nefnd til að hafa umsjón með þessu verkefni og í henni sitja Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur, Tryggvi Þór Herbertsson hagfræðingur og Unnur Dís Skaftadóttir mannfræðingur.

Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að verkefni nefndarinnar skuli skipt í tvo megináfanga. Í fyrsta lagi mun nefndin leggja fyrir forsrn. skilgreiningu á verkefnu og gera tillögu um hvernig í það skuli ráðist. Það er ljóst að verkefnið er víðfeðmt í eðli sínu og því ber nauðsyn til að nefndin afmarki viðfangsefni sitt af kostgæfni.

Í öðru lagi er nefndinni ætlaði að hafa umsjón með hinni endanlegu framkvæmd verkefnisins en til greina kemur að fela t.d. stofnunum háskólans og sjálfstæðum aðilum að vinna þá þætti könnunarinnar sem ákveðið verður að ráðast í á grundvelli tillagna nefndarinnar.

Ekki liggja fyrir áætlanir um hvenær nefndarstarfinu skuli lokið og nefndinni hafa ekki verið sett tímamörk. Hins vegar er við það miðað að fyrri áfanga í starfi nefndarinnar geti verið lokið í kringum næstu áramót og verkefninu í heild fyrir lok ársins 2001, þ.e. áður en gildistími áætlunarinnar er úti. Að öðru leyti má vísa til þess að félmrh. undirbýr nú framlagningu skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála og verður í henni gerð ítarlegri grein fyrir því hvað líður framkvæmd á einstökum verkefnum og viðfangssefnum sem talin eru upp í framkvæmdaáætlunni, bæði þeirra sem eru á verkefnaskrá ríkisstjórnar og þeirra sem eru á verkefnaskrá einstakra ráðuneyta.