Flutningur á félagslegum verkefnum

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:35:31 (1080)

2000-11-01 14:35:31# 126. lþ. 18.2 fundur 139. mál: #A flutningur á félagslegum verkefnum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil svara fyrirspurn hv. þm. Hv. þm. vísar til þál. um úttekt og flutning á félagslegum verkefnum frá heilbr.- og trmrn. til félmrn. sem Alþingi samþykkti hinn 5. júní 1996. Samkvæmt henni var því beint til ríkisstjórnarinnar að skipa starfshóp, m.a. með fulltrúum þingflokkanna, til að gera úttekt á og skilgreina hvaða stofnanir og verkefni á sviði heilbr.- og trmrn. væri í raun félagslegt verkefni sem væri eðlilegra að heyrði undir félmrn. Um svipað leyti hafði ríkisstjórnin ákveðið að koma á fót starfshópi til að fjalla um verkaskiptingu ráðuneyta í þágu fatlaðra. Þar eð verkefni þess hóps þótti fara að verulegu leyti saman við hlutverk starfshóps sem skipa bar samkvæmt framangreindri ályktun voru þessi viðfangsefni falin einum starfshópi sem forsrh. skipaði hinn 26. september 1996 samkvæmt tilnefningum félmrh., heilbr.- og trmrh. og menntmrh., svo og þingflokkum stjórnarsinna annars vegar og þingflokkum utan ríkisstjórnar hins vegar. Viðfangsefni starfshópsins hafa að vonum reynst bæði viðamikil og afar margvísleg og ólík innbyrðis.

Þá hefur ekki reynst með öllu unnt að fjalla sjálfstætt um verkaskiptingu ráðuneytanna án tillits til inntaks þeirrar þjónustu sem um ræðir á hverju sviði um sig. Störf starfshópsins hafa dregist eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda og hefur hópurinn ekki skilað ráðuneytinu neinu áliti eða tillögum að svo stöddu.

Nú er til athugunar að taka verkaskiptingu ráðuneyta til skoðunar sem hluta af endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands sem ríkisstjórnin hefur boðað í stefnuyfirlýsingu sinni frá 28. maí 1999. Sú endurskoðun mundi eftir atvikum einnig ná til verkaskiptingar milli félmrn. og heilbr.- og trmrn. enda er starfssvið þeirra og verkefni um margt skyld líkt og bent var á með þál.

Rétt er að nefna að skipting verkefna milli þeirra tveggja ráðuneyta sem koma við sögu hefur verið til skoðunar og verkefni hafa verið flutt milli þeirra. Þar má nefna lög um foreldra- og fæðingarorlof en með gildistöku þeirra um næstu áramót færist sá málaflokkur frá heilbr.- og trmrn. og að hluta til frá fjmrn. til félmrn. Ráðuneytin vinna einnig saman að ýmsum málum, t.d. að því er varðar stefnumótun um læknismeðferð barna, forvarnir, meðferð og úrræði fyrir fíkniefnaneytendur og málefni fatlaðra.

Þá er einnig rétt að vekja athygli á því að hluti þeirra málaflokka sem um ræðir er ekki eingöngu í höndum ríkisins heldur einnig á höndum sveitarfélaga í vaxandi mæli. Dæmi um tilflutning verkefna sem til skoðunar hafa verið er flutningur á þjónustusviði fatlaðra og langveik börn. Flutningur svo viðamikilla verkefna er vandasamur enda þarf að gæta vel að hag þeirra sem reiða sig á þjónustuna og hann getur reynst flókinn, t.d. hvað fjárhagsleg atriði varðar. Smæð sumra sveitarfélaga er annað atriði sem taka þarf tillit til. Þessi verkefnaflutningur mun koma til kasta þingsins innan skamms og gefst þá tækifæri til að ræða nánar um verkaskiptingu milli ráðuneyta annars vegar og milli ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Með hliðsjón af þessum orðum tel ég rétt að sá hópur sem fyrirspurnin tekur sérstaklega til skoði það mál sérstaklega hvort ekki sé rétt að hann ljúki störfum sínum með hliðsjón af þeim ákvörðunum ríkisstjórnarinnar að taka verkaskiptingu milli einstakra ráðuneyta til sérstakrar athugunar á sínum vettvangi.