Ný stétt vinnukvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:14:29 (1098)

2000-11-01 15:14:29# 126. lþ. 18.9 fundur 126. mál: #A ný stétt vinnukvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Rétt er áður en ég byrja að svara spurningunum að upplýsa um hve stóran stóran hóp er að ræða.

Fjöldi atvinnuleyfa sem voru veittar vegna vistráðningar á einkaheimilum voru 1997 17, 1998 15, 1999 16 og 26 á þessu ári til dagsins í dag.

En framkvæmdaáætlunin um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna tekur til fjögurra ára og því tímabili lýkur í árslok á næsta ári.

[15:15]

Framkvæmd verkefnisins sem um er spurt er í undirbúningi í ráðuneytinu og verður að öllum líkindum unnið á nokkuð annan hátt en lýst er í áætluninni. Í ráðuneytinu fer fram endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga og einnig er nefnd sem falið hefur verið að kanna aðstæður erlends vinnuafls og útlendinga með dvalarleyfi hér á landi að hefja störf. Nefndinni er jafnframt falið að skila tillögum um úrbætur þar sem þess er talin þörf. Alþýðusamband Íslands á m.a. fulltrúa í báðum nefndum.

Við endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga verða viðhöfð sérstök vinnubrögð sem eiga að kalla fram kynjahliðar laganna. Má af því sjálfu leiða að aðstæður þeirra sem vinna á einkaheimilum með atvinnuleyfi verða sérstaklega skoðaðar því þar er nánast eingöngu um konur að ræða. Vegna erlendra kvenna sem koma hingað til lands til að vinna á einkaheimilum þarf að sækja um atvinnuleyfi á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að fyrir liggi skriflegur samningur milli aðila þar sem fram kemur gildistími samnings, hlunnindi að því er varðar fæði og húsnæði, daglegur vinnutími, daglegur og vikulegur hvíldartími og réttur til að stunda nám. Fæði og húsnæði skal vera ókeypis. Útlendingur sem óskað er eftir að ráða til starfa á einkaheimili má ekki vera yngri en 17 ára. ASÍ veitir umsögn um umsóknir um atvinnuleyfi en atvinnuleyfið er veitt af Vinnumálastofnun. Sú vinnuregla hefur verið viðhöfð um nokkurn tíma að veita leyfið í fyrstu einungis til sex mánaða og ef um framlengingu er að ræða að kalla þá eftir upplýsingum um greidd laun, greiðslur opinberra gjalda, greiðslur í lífeyrissjóð og tryggingar. Að fengnum þeim upplýsingum er tekin ákvörðun um hvort veita eigi framlengingu leyfisins.

Í einhverjum tilvikum hefur Vinnumálastofnun jafnframt samþykkt annað atvinnuleyfi til einstaklinga sem hafa haft leyfi til að vinna inni á einkaheimilum þannig að þeir geti unnið hlutastarf utan heimilis. Þetta hefur þótt bæta réttarstöðu þeirra og koma í veg fyrir einangrun þeirra. Og ASÍ hefur veitt þessum konum góða aðstoð ef eitthvað hefur bjátað á.

Könnuninni er sem sagt ekki lokið þannig að ég svara ekki spurningu númer tvö.

Spurningunni um tillögur sem ég sé til úrbóta vil ég svara þannig: Við endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga verður réttarstaða allra þeirra sem hér eru með atvinnuleyfi skoðuð og þegar hafa verið rædd ákveðin atriði sem ættu m.a. að geta bætt stöðu þessara einstaklinga. Það má nefna öruggari tryggingar fyrstu sex mánuðina sem dvalið er í landinu, íslenskukennslu, aukna tryggingu fyrir því að þeir sem hingað koma og starfa fái kennslu eða upplýsingar um samfélagið, réttindi sín og skyldur. Þá eru Vinnumálastofnun og ASÍ þessa dagana að vinna að verklagsreglum sem ættu að auðvelda samskiptin og gera aðilum betur kleift að grípa inn í eða gera lögreglu viðvart ef um hugsanleg brot kynni að vera að ræða.