Þjónusta við börn með einhverfu og skyldar raskanir

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:23:37 (1102)

2000-11-01 15:23:37# 126. lþ. 18.10 fundur 127. mál: #A þjónusta við börn með einhverfu og skyldar raskanir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Þegar Barna- og unglingageðdeild Landspítalans hætti að taka við nýjum tilvísunum vegna einhverfu og skyldra raskana árið 1996 vísaði hún til laga um máefni fatlaðra og taldi að félmrn. bæri að annast þjónustu við einhverfa samkvæmt þeim lögum.

Félmrh. tók þá ákvörðun um að fela Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins að koma á fagteymi vegna einhverfu í samræmi við skýrslu nefndar frá 15. jan. 1996. Um leið hlýtur Greiningarstöðin að hafa tekið yfir hlutverk barnageðdeildar Landspítalans sem var og er umtalsvert verkefni.

Ég spyr því: Hvernig var gengið frá flutningi á þessum málaflokki milli ráðuneytanna og hvernig var gengið frá flutningi á þessum málaflokki milli barnageðdeildar og Greiningarstöðvarinnar? Það er stórmál hvort fjármagn og stöðugildi fylgdu þessum tilflutningi.

Í skýrslu Greiningarstöðvar um þjónustu við börn og ungmenni með einhverfu, kemur fram að greindum tilvikum einhverfu hafi fjölgað verulega. Í stað áætlana sem áður byggðu á einum til tveimur börnum með einhverfu í hverjum árgangi þarf nú að gera ráð fyrir allt að níu til tíu börnum. Þá er aðeins talin dæmigerð einhverfa. Börn með ódæmigerða einhverfu þurfa sams konar þjónustu og börn með einhverfu og það á einnig við um heilkenni Aspergers, a.m.k. framan af ævinni.

Ég spyr: Hvernig hefur félmrn. brugðist við þessari fjölgun?

Þess má geta að umboðsmaður barna sendi félmrh. bréf í apríl 1997 með fyrirspurn um málefni einhverfra barna, m.a. um hvort rétt væri að einhverf börn fengju lakari þjónustu eftir 1996 en fyrir þann tíma þegar bæði Greiningarstöðin og barnageðdeild sinntu þessum málaflokki. Í svarbréfi ráðherra kemur m.a. fram að Greiningarstöðin hafi annast greiningu og ráðgjöf vegna einhverfra og að ætlunin sé að efla verulega þennan þátt í starfsemi stofnunarinar. Á hvern hátt hefur þessi þáttur verið efldur verulega? Við hvað er miðað? Var t.d. gerð áætlun um mannahald og ef svo er, hvernig hefur henni verið fylgt eftir?

Herra forseti. Hver er framtíðarsýn félmrn. í þessum málaflokki og hvert er framtíðarhlutverk Greiningarstöðvar ríkisins í málaflokknum?