Þjónusta við börn með einhverfu og skyldar raskanir

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:26:35 (1103)

2000-11-01 15:26:35# 126. lþ. 18.10 fundur 127. mál: #A þjónusta við börn með einhverfu og skyldar raskanir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar ákveðið var í ársbyrjun 1997 að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins tæki að sér að veita börnum með einhverfu og fjölskyldum þeirra þjónustu sem áður hafði verið veitt af BUGL var ekki gengið frá formlegu samkomulagi þannig að ekki var um að ræða tilfærslu á stöðugildum frá unglingageðdeild til Greiningarstöðvar.

Varðandi flutning einstaklingsmála milli stofnananna þá varð samkomulag um að það mundi gerast smám saman að því er snerti þá einstaklinga sem voru í þjónustu á BUGL og voru nær eingöngu börn á skólaaldri, en Greiningarstöðin sinnti áfram þeim sem voru nýlega greind, þ.e. yngri börnum, svo og þeim sem bættust í hópinn.

Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur má ætla að fimm börn greinist með einhverfu á hverju ári en ekki níu til tíu eins og fram kemur í fyrirspurninni. Í skýrslu nefndar um framtíðarskipulag og þjónustu við einhverfa frá árinu 1996 var áætlað að fjögur börn mundu greinast á næstu árum á ári og áætlanir hafa satt að segja tekið verulega mið af því.

Stofnað hefur verið sérstakt svið á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni sem hefur umsjón með einhverfu og málhömlun. Áður hafði hlutverk stofnunarinnar takmarkast að mestu við greiningu en nú ber henni í auknum mæli að sinna ráðgjöf og fræðslu fyrir foreldra og fagmenn. Árinu 1997 var 1.750 þús. kr. varið til undirbúningsstarfs vegna þessara nýju verkefna. Ári síðar var 7 milljónum varið til Greiningarstöðvarinnar vegna yfirtöku hennar á þjónustu við einhverfa og á árinu 1999 var aftur varið 7 millj. kr. til að bæta mannafla. Þar af runnu 3 millj. kr. til að ráða sérfræðing í meðferð einhverfra.

Frá 1997 hafa bæst rúmlega tvö og hálft stöðugildi við þann hóp sérfræðinga sem sinnir sérstaklega greiningu og ráðgjöf vegna einhverfu og málhamlana. Stöðugildi á einhverfu og málhömlunarsviði voru í ársbyrjun 1997 5,26 en eru í dag 7,85 og vinnubrögð hafa líka skerpst. Það hefur verið lögð áhersla á að bæta þekkingu á einhverfu og skyldum röskunum, bæði innan Greiningarstöðvar og meðal þeirra sem vinna með einhverfa á vettvangi.

Á árinu 1999 var opnað heimili fyrir einhverf börn við Dimmuhvarf í Kópavogi. Þar geta dvalið sex ungmenni. Í undirbúningi er að byggja sambýli fyrir einhverfa við Jöklasel í Reykjavík sem yrði tekið í notkun síðla næsta árs.

[15:30]

Síðan er spurt um framtíðarsýn ráðuneytisins í málefnum einhverfra. Hún er í stuttu máli sú að þeir og fjölskyldur þeirra fái þjónustu í samræmi við þarfir sínar. Þessi sýn tengist því að málefni fatlaðra færist frá ríki til sveitarfélaga. Í frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem ég mun væntanlega leggja fram innan skamms er rík áhersla lögð á að þjónusta sé veitt í samræmi við þjónustuþarfir. Það er ljóst að einhverft fólk býr við alvarlega fötlun og hefur þörf fyrir víðtæka og ævilanga aðstoð í flestum tilvikum. Það er trú ráðuneytisins að sveitarfélögin geti veitt nauðsynlega þjónustu, ekki síst í ljósi þess að áhersla er lögð á samvinnu og samstarf við önnur stjórnvöld þegar svo á við. Það má heldur ekki gleyma því að mikil ábyrgð hvílir á menntakerfi og heilbrigðiskerfi.

Í nýju frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skiptir réttaröryggi miklu máli. Í frv. er að finna fjölmörg ákvæði sem eiga að tryggja rétt manna til þjónustunnar. Frv. til laga um sérstaka réttindagæslu fatlaðra rennir enn frekar stoðum undir það að fatlaðir fái þá aðstoð og þjónustu sem þeim ber.

Þó svo að til standi að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga þá er gert ráð fyrir að Greiningarstöðin verði áfram á vegum ríkisins og það hefur verið samið sérstakt frv. til laga um hana sem er fylgifrv. með félagsþjónustufrv. Þar er lögð áhersla á skyldu Greiningarstöðvarinnar til að sinna greiningu og ráðgjöf vegna flókinna eða sjaldgæfra fatlana, sem einhverfan fellur vissulega undir, og að viðhalda þekkingu.