Þjónusta við börn með einhverfu og skyldar raskanir

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:31:25 (1104)

2000-11-01 15:31:25# 126. lþ. 18.10 fundur 127. mál: #A þjónusta við börn með einhverfu og skyldar raskanir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég er harla undrandi á svari ráðherrans vegna þess að barna- og unglingageðdeild lýsti því yfir að hún gæti ekki tekið við fleiri einhverfum börnum til meðferðar þrátt fyrir að slík þjónusta hefði verið veitt þar áratugum saman. Þvílíkt álag var á deildina og ekki mannahald til að sinna þessari miklu aukningu. Þetta var örþrifaráð af hálfu barna- og unglingageðdeildar vegna þess að börnum hafði fjölgað án þess að stöðugildum fjölgaði eða endurskipulagning ætti sér stað. Þetta er enginn faraldur, herra forseti, heldur vegna þess að þekking á röskun í taugaþroska fleygir fram. Alþjóðleg greiningarviðmið hafa breyst og greiningin er áreiðanlegri en áður. Þetta hefur komið fram í greinum sem birtust á þeim tíma sem barna- og unglingageðdeild hafnaði því að taka við fleiri börnum.

Greiningarstöðin tekur nú við verkefnum sem tvær stofnanir höfðu áður auk þeirrar fjölgunar sem er að verða. Það kemur mér mjög á óvart að heyra ráðherrann nefna fimm börn en ekki níu til tíu vegna þess að það sem fram kemur í fsp. minni er unnið upp úr skýrslum, þar hef ég m.a. skoðað skýrslur og vef Greiningarstöðvar, skýrslu umboðsmanns barna og fleiri skýrslur sem ég hef undir höndum þar sem ég hef komið að þessum málaflokki til margra ára. Að gera ráð fyrir fjórum börnum á næstu árum við þessar aðstæður er í raun hörmulegt svar. Þó að engin lækning sé til á einhverfu þá skiptir miklu máli að fjölskyldan og þjónustuaðilar skilji þarfir einstaklingsins og geti brugðist við þeim. Greining er gífurlegt réttindamál fyrir fjölskyldurnar sem eiga þessi börn.

Mér finnst ekki nóg að heyra að framtíðarsýnin sé að börn fái þjónustu í samræmi við þarfir sínar ef ekki liggur fyrir, herra forseti, áætlun um mannahald og hvernig því skuli fylgt eftir þegar svo mikilvægur málaflokkur er fluttur á milli ráðuneyta og stofnana án samnings.