Þjónusta við börn með einhverfu og skyldar raskanir

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:33:50 (1105)

2000-11-01 15:33:50# 126. lþ. 18.10 fundur 127. mál: #A þjónusta við börn með einhverfu og skyldar raskanir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er rétt að halda því til haga að málefni barna með einhverfu falla undir a.m.k. þrjú ráðuneyti og margar stofnanir, þar með taldar svæðisskrifstofur málefna fatlaðra, leikskóla, skóla og ráðgjafarþjónustu skólanna, félagsþjónustu sveitarfélaganna og heilbrigðisstofnanir. Þjónustan sem á sínum tíma var flutt frá barna- og unglingageðdeild til Greiningarstöðvarinnar er sérfræðiþjónusta sem felur m.a. í sér eftirfylgni, fræðslu og skráningu í faraldsfræði. Þannig er vart hægt að tala um flutning málefna barna með einhverfu til Greiningarstöðvarinnar heldur á þetta við um afmarkaða þjónusta. Önnur þjónusta er enn innan fyrrgreindra kerfa.

Um það bil fimm börn úr hverjum árgangi greinast með dæmigerða og ódæmigerða einhverfu en annar eins hópur þarf athugun og ráðgjöf. Það er líklega þar sem okkur ber í milli í þessum tölum, mér og fyrirspyrjanda. Annar eins hópur þarf athugun og ráðgjöf vegna hamlandi einhverfuþátta þó að þeir einstaklingar nái ekki greiningarviðmiðum einhverfu. Talan sem kemur fram í fsp. hv. þm. er væntanlega byggð á þessari sýn sem kemur m.a. fram á námskeiðum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð. Í þessum tölum eru ekki, ég tek það skýrt fram, einstaklingar með Asperger-heilkenni en sá hópur býr við litla skipulagða þjónustu og hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Þeir einstaklingar greina sig frá einhverfunni að því leyti að greindin er óskert, svo og málþroski. Algengi þessa ástands er ekki fullkannað en sennilega er það talsvert algengara en einhverfa, enda vægari og þarf ekki á jafnmiklum sérhæfðum stuðningi að halda. Greiningarstöðin hefur ekki haft tök á að sinna þessum hópi sem skyldi.

Meðal starfsfólks sviðsins á Greiningarstöðinni eru sálfræðingar, þroskaþjálfar og sérkennari auk barnalæknis, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og talmeinafræðings, sem að vísu eru í hlutastörfum.