Mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:48:57 (1111)

2000-11-01 15:48:57# 126. lþ. 18.12 fundur 35. mál: #A mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég beini svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. umhvrh.:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fram fari sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls, þ.e. svæðinu kringum Snæfell með Eyjabökkum og Vesturöræfum, í þeim tilgangi að geta borið saman áhrif ólíkra nýtingarmöguleika svæðisins?

Herra forseti. Ástæða þessarar fyrirspurnar er auðvitað sú að fyrir dyrum stendur umhverfismat og reyndar stendur yfir umhverfismat vegna mögulegrar Kárahnjúkavirkjunar á svæðinu norðan Vatnajökuls. Í umsögn eða úrskurði skipulagsstjóra um matsáætlun viðkomandi framkvæmdar sagði Skipulagsstofnun eitthvað á þá leið að eðlilegt væri að umhverfisáhrif þjóðgarðs yrðu metin eða aðrir nýtingarmöguleikar svæðisins en það yrði ekki séð að slíkt væri í verkahring framkvæmdaraðila.

Af því tilefni ályktaði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð um málið og sendi hæstv. umhvrh. áskorun um að láta slíkt mat fram fram og þá mögulega á forræði Náttúruverndar ríkisins. Við þessari áskorun hefur ekki borist neitt svar og af því tilefni legg ég þessa spurningu hér fram til hæstv. ráðherra.

Mig langar til að vitna í það bréf sem ráðherranum var ritað af þingflokki og varaþingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Í því bréfi segir, með leyfi herra forseta:

,,Í samræmi við ályktun fundar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um stóriðjuframkvæmdir er þeim eindregnu tilmælum beint til umhvrh. að gert verði sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls, svæðinu kringum Snæfell með Eyjabökkum og Vesturöræfum og að Náttúruvernd ríkisins verði falin gerð matsskýrslu eins og um framkvæmdaraðila væri að ræða. Þannig verði framkvæmd matsins á forræði umhvrn. og unnin af þeirri stofnun sem lögum samkvæmt hefur friðlýstar náttúruminjar og stofnun þjóðgarða á sínu verksviði. Matsskýrsla þjóðgarðs á þessu svæði þyrfti að liggja frammi á sama tíma og matsskýrslur vegna álvers á Reyðarfirði og virkjanaframkvæmda við Kárahnjúka. Þannig yrði hægt að meta samhliða helstu nýtingarkosti sem rætt hefur verið um í tengslum við svæðið norðan Vatnajökuls.``

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er sem sé þessi:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að sjálfstætt mat af þessu tagi fari fram?