Störf nefndar um jarðskjálftavá

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 17:39:40 (1118)

2000-11-01 17:39:40# 126. lþ. 18.13 fundur 109. mál: #A störf nefndar um jarðskjálftavá# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er sennilega rétt tilfinning hjá hv. fyrirspyrjanda að um nokkurt tómarúm sé að ræða miðað við þau svör sem hér hafa verið gefin. Það er rétt að ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um það í hvaða farveg þessi skýrsla fer og hvort farið verði eftir tillögum sem þar eru. Það er til skoðunar í ráðuneytisstjóranefndinni eins og fjölmörg önnur mál sem snúa að jarðskjálftunum sem urðu í sumar. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær við megum vænta niðurstöðu frá þeirri nefnd. Það verður vonandi bráðlega.

Varðandi hugrenningar hv. fyrirspyrjanda um að ef fleiri jarðskjálftar yrðu og stöðu Reykvíkinga í því sambandi, þá heyrðist mér að það beindist nú kannski meira að almannavörnum almennt. En eins og ég hef skilið niðurstöður þeirrar skýrslu sem kom út í mars þá er lagt þar til að Ofanflóðasjóður verði útvíkkaður sem nokkurs konar hamfarasjóður en þau mál snúa ekki beint að því hvernig flytja eigi fólk af svæðum við skyndihættu sem verður.