Skert þjónusta Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:18:22 (1137)

2000-11-01 18:18:22# 126. lþ. 18.6 fundur 128. mál: #A skert þjónusta Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Austurl. spyr mig þriggja spurninga. Í fyrsta lagi er spurt hvers vegna dregið sé stórlega úr sérfræðiþjónustu í Neskaupstað.

Það er ekki rétt að það sé dregið stórlega úr sérfræðiþjónustu í Neskaupstað. Í fyrra voru unnin sérfræðilæknisverk, ferliverk, sem svara til 15 þúsund eininga samkvæmt gjaldskrá lækna. Í ár fékk spítalinn leyfi til að láta sérfræðilæknana vinna 41.500 einingar, eða þrefalt meira en í fyrra. Og þessi áætlun hefur legið fyrir síðan um áramót.

Í öðru lagi er spurt að því hvort það sé sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið að senda sjúklinga til læknis milli landsfjórðunga.

Svarið við því er auðvitað nei, enda lögðum við í grunninn fyrir árið 2000 120 millj. kr. meira til Austurlands en við gerðum árið á undan.

Svo er í þriðja lagi er spurt að hvort aukafjárveitingu sé að vænta til FSN.

Svarið er þetta: Það mun liggja fyrir í nóvember að undangengnum viðræðum við þá sem bera ábyrgð á rekstrinum eystra og ég veit að fyrirspyrjanda er kunnugt um að þessi vandi í Neskaupstað er hvorki nýr né óalgengur. En hann er mjög alvarlegur hins vegar.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef að austan, var veitt meira fé til reglulegrar starfsemi fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Greiddar voru upp allar skuldir sjúkrahússins í Neskaupstað um sl. áramót og það hefur ekki gerst áður, a.m.k. ekki síðustu tíu ár að enginn hali sé í byrjun árs. Og ekki hafa verið unnin hlutfallslega fleiri læknisverk þar í áraraðir fyrr en á árinu í ár. Þetta er staðreynd málsins og þetta er líka mikilvægt vegna þess að við viljum nýta þessa ágætu stofnanir eins og í Neskaupstað.

Ég veit hvert tilefni umræðunnar er. Það er bréf frá sjúkrahússlækninum sem hann skrifaði sjúklingunum sínum. Ég vil, með leyfi forseta, lesa bréfið. Það hljóðar svo:

,,Fjárveitingar heilbrigðisráðuneytisins til FSN vegna sérfræðistarfa fyrir sjúklinga utan spítala eru nú uppurnar. Ekki hefur tekist að fá viðbótarfjármagn þannig að þessi þjónusta fellur niður frá og með deginum í dag og til áramóta. Þar sem þú ert á biðlista eftir skoðun og rannsókn hjá mér verð ég því miður að biðja þig að leita til sérfræðinga í Reykjavík eða á Akureyri, getir þú ekki beðið til áramóta. Við hörmum að ekki skuli unnt að veita þessa þjónustu hér, en því miður höfum við ekki svigrúm til þess. Varðandi nánari skýringar og upplýsingar vísa ég til heilbrigðisráðuneytisins.``

Undir þetta skrifar læknirinn.

Þetta er mjög mikið umhugsunarefni fyrir okkur öll. Þarna erum við að skoða vísi að einkapraxís, þ.e. þessi svokölluðu ferliverk sem við byrjuðum með í Neskaupstað í fyrra. Ef öll sjúkrahúsþjónusta væri undir þessum ferliverkum þá getum við spurt okkur sjálf að því hvernig rekstrinum væri háttað. Ég held að þetta sé mjög lærdómsríkt dæmi sem við þurfum öll að skoða mjög grandvart í okkar huga vegna þess að því er ekki þannig farið að læknarnir séu ekki á launum á sjúkrahúsinu og í fullri vinnu. Þeir eru í fullri vinnu og það er ekkert sem stoppar það af að þessi verk sem hér um ræðir séu unnin á sjúkrahúsinu þar. Ekkert stoppar það af. Við höfum unnið þessi verk í áravís. Þetta er aðeins um ferliverkin.

Ég sagði áðan að við bættum við grunninn 120 milljónum til Austurlands á síðasta ári og tókum hala burt frá sjúkrahúsinu í Neskaupstað sem var ansi drjúg upphæð. Það segir mér enginn að það þurfi að stoppa allar aðgerðir vegna þess að talið er að það vanti eina og hálfa milljón í svokölluð ferliverk. Þetta skulum við íhuga.