Búsetuþróun

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:46:32 (1148)

2000-11-01 18:46:32# 126. lþ. 18.14 fundur 58. mál: #A búsetuþróun# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þann stuðning sem hann vill veita mér í þessum mikilvæga málaflokki. Á þessum stutta tíma er erfitt að fjalla um það sem unnið er að í iðnrn. Hv. þm. Jón Bjarnason spurði um skattamálin og ég var búin að koma inn á fasteignaskattinn sem er mikið réttlætismál fyrir landsbyggðina. Hann spurði um raunverulegar aðgerðir. Ég vil þá segja honum að ég tel að það verði raunverulegar aðgerðir þegar við förum út í stórframkvæmdir á Austurlandi. Ég vænti svo sannarlega að hv. þm. og aðrir þingmenn vinstri grænna standi með okkur í því mikla máli.

Varðandi kostnað við upphitun húsnæðis á landsbyggðinni þá hefur hann farið stórlega hækkandi á síðustu árum. Nú er hann orðinn það hár, vil ég segja, að það setur dýrar hitaveitur í ákveðinn vanda. Ég tel að þingið þurfi að fjalla um það í tengslum við fjárlagagerðina hvort rétt væri að hækka niðurgreiðslur á rafmagnsupphitun, þannig er að fólk greiðir um 40% af raunverulegum kostnaði þar sem rafmagn er notað.

Hins vegar eiga nokkrar hitaveitur vissulega í miklum vanda. Ég tel að í tengslum við fjárlagagerðina og reyndar í nefndastörfum þurfi að móta tillögur um hvernig farið skuli í það mál. Það þarf að veita fjármagn til aðstoðar þeim hitaveitum sem þarna eiga í hlut, það er líka réttlætismál að koma þeim sveitarfélögum sem þannig er ástatt um til hjálpar.

Dreifbýlisstyrkur vegna námsmanna hefur verið stórhækkaður en þar má alveg gera betur. Eins held ég að þær reglur sem hæstv. menntmrh. hefur kynnt núna í sambandi við það fyrirkomulag sem beita skal við úthlutun sé í réttlætisátt og lýsi stuðningi við það. Það má því tína eitt og annað til.

Varðandi flutning stofnana út á land þá er öllum kunnugt um flutning Byggðastofnunar. Þar má einnig nefna Jafnréttisstofu og Orkusjóð, yfirkjötmatsmann og eitt og annað. Allt er þetta í frekar smáum stíl en hv. þingmenn verða að hafa skilning á því að viljinn er fyrir hendi.