Kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:59:18 (1154)

2000-11-01 18:59:18# 126. lþ. 18.15 fundur 95. mál: #A kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hér er fyrst og fremst rætt um vanda sveitarfélaga á Vestfjörðum sem hefur skapast þar vegna þess að ríkisvaldið hefur gengið hart fram í því að skerða tekjustofna sveitarfélaga á öllu landinu. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa orðið fyrir sérlega miklu tekjutapi vegna mikillar búseturöskunar sem þar hefur verið, m.a. vegna stjórnvaldsaðgerða við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og öðru sem hefur kannski komið einna harðast niður á vestfirskum byggðum.

Herra forseti. Ég tel að hugsanlega sölu vestfirskra sveitarfélaga á eignarhlut sínum í Orkubúi Vestfjarða, sem e.t.v. er ekkert óskynsamleg aðgerð hjá sveitarfélögunum, eigi ekki að tengja skuldum vegna félagslegra íbúða sem margar hverjar voru byggðar þegar mikill uppgangur var á Vestfjörðum. Verði það gert er ríkisvaldið að beita sveitarfélög á Vestfjörðum miklu ofríki með hreinni og beinni eignaupptöku. Sölu á Orkubúi Vestfjarða og vanda félagslega íbúðakerfisins á ekki að blanda saman á þennan hátt.